Dagsetning Tilvísun
14. jan. 1991 212/91
Virðisaukaskattur af starfsemi Skógræktarfélags Íslands.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. október sl. , þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig fara skuli með annars vegar þann virðisaukaskatt sem félagið hefur greitt, m.a. plöntuframleiðendum vegna trjáplöntukaupa, og hins vegar þann skatt sem félagið hefur innheimt vegna seldrar vöru og þjónustu.
Í bréfinu er félaginu lýst sem sambandsfélagi sem samanstendur af mörgum skógræktarfélögum víðs vegar um landið. Það afhendir skógræktarfélögum trjáplöntur endurgjaldslaust til framræktunar. Þau selja síðan trjáplöntur úr skóglendi sínu að nokkrum árum liðnum.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Sala X og skógræktarfélaganna á trjáplöntum, jólatrjám og annarri vöru, svo og skattskyldri þjónustu, er að áliti ríkisskattstjóra skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra, enda er hér um að ræða samskonar sölu og atvinnufyrirtæki hafa með höndum. Ber félögunum því að innheimta og skila virðisaukaskatti af slíkri sölu.
Skattskyldir aðilar mega telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna kaupa á aðföngum til hinnar skattskyldu starfsemi, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna og reglug. nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts.
Starfsemi X virðist ekki nema að takmörkuðu leyti felast í ræktun plantna til sölu, heldur virðist starfsemi félagsins að mestu leyti vera fólgin í því að safna fé til trjáplöntukaupa og afhenda öðrum skógræktarfélögum plönturnar án endurgjalds. Helstu tekjur, auk sölutekna, eru mótteknir styrkir og söfnunarfé.
Samkvæmt framansögðu fær ríkisskattstjóri ekki séð að fjárfesting félagsins standi nema að litlu leyti í tengslum við væntanlega sölu þess á skattskyldum vörum eða þjónustu. Því er að áliti ríkisskattstjóra ekki hægt að telja til innskatts allan þann virðisaukaskatt sem félagið greiðir vegna plöntukaupa, heldur verður félagið að reikna út innskatt sinn í samræmi við reglur II. kafla reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts.
Við útreikning innskatts þarf að finna hvert hlutfall skattskyldrar sölu hvers árs er af heildartekjum ársins. Til heildartekna í þessu sambandi teljast bæði sölutekjur, styrkir (jafnt frá einkaaðilum sem opinberum aðilum), árgjöld og aðrar tekjur. Félaginu er síðan heimilt að telja greiddan virðisaukaskatt af aðföngum til innskatts í sama hlutfalli og skattskyld sala er af heildartekjum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.