Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              63/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi táknmálstúlka.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. febr. sl., þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort starfsemi táknmálstúlka sé virðisaukaskattsskyld. Í bréfinu segir að starfsemi táknmálstúlka sé tvíþætt, annars vegar túlkun fyrir heyrnarlausa í framhaldsskólum og hins vegar túlkun við félagslegar aðstæður, svo sem hjá lækni, bankastjóra, á vinnustöðum, á fundum og námskeiðum, hjá lögreglu og á barnaheimilum o.s.frv.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum starfa táknmálstúlkar sem launamenn þeirra framhaldsskóla þar sem heyrnarlausir stunda nám. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til innheimtu virðisaukaskatts í þessum tilvikum. Í flestum öðrum tilvikum greiðir sá aðili sem hefur samskipti við heyrnarlausan mann fyrir þjónustu táknmálstúlks. Stundum er þjónustan kostuð af Félagi heyrnarlausra.

Að áliti ríkisskattstjóra er sjálfstæð starfsemi táknmálstúlka almennt skattskyld samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þegar um er að ræða túlkun í tengslum við vitjun hjá lækni eða dvöl á sjúkrahúsi o.þ.h. má þó líta á hana sem nauðsynlegan þátt í heilbrigðisþjónustu og fellur starfsemi táknmálstúlka í þessum sérstöku tilvikum þá undir undanþáguákvæði l. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Sambærilegt gildir um túlkun fyrir stofnanir og aðra aðila vegna félagslegar þjónustu sem fellur undir 2. tölul. sömu málsgreinar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.