Dagsetning                       Tilvísun
22. júlí 1991                             291/91

 

Virðisaukaskattur af stjörnuspekiþjónustu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. apríl 1991, þar sem fram kemur það sjónarmið að starfsemi yðar, sem felst í því að útbúa persónulýsingar á grundvelli stjörnuspeki, sé undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu á grundvelli þess að um sé að ræða útgáfu og sölu bóka. Segir í bréfinu að með sölu stjörnukorta sé verið að selja ritaðan texta á íslensku þrátt fyrir að aðeins eitt eintak í einu sé framleitt; það er persónulegt eintak fyrir hvern kaupanda. Hins vegar séu allir textar sóttir í fyrirfram tilbúinn „textabanka“ sem er sá sami og væri notaður ef gefa ætti textana út í hefðbundnu bókarformi.

Ríkisskattstjóri fær ekki séð að hægt sé að jafna gerð stjörnukorta, sem unnin eru sérstaklega fyrir ákveðinn aðila, við bókaútgáfu, þrátt fyrir að kortið hafi jafnframt að geyma texta á nokkrum blaðsíðum og sé heft saman í kápu. Starfsemi yðar virðist felast í því að útbúa stjörnukort og persónulýsingu miðað við forsendur um fæðingardag o.fl. Þjónustusala af þessu tagi er virðisaukaskattsskyld, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.