Dagsetning                       Tilvísun
8. september 1993                            528/93

 

Virðisaukaskattur af styrk til þáttagerðar (kostun)

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. júlí 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur leggist á tiltekinn styrk til þáttagerðar.

Í bréfi yðar kemur fram, að síðastliðið haust sóttuð þér um styrk til H til gerðar sjónvarpsþáttar um H. Áður höfðuð þér samið við sjónvarpsstöð um að fá að sýna þætti þessa í dagskrá stöðvarinnar. Forráðamenn stöðvarinnar samþykktu þessa málaleitan að því tilskildu að tæknileg gæði þáttanna væru viðunandi og sjónvarpsstöðin bæri engan kostnað af gerð þeirra. H samþykkti að veita yður 100.000 kr. styrk til gerðs hvers þáttar. Engin skilyrði voru sett af hálfu bæjarins, hvorki hvað varðar efni þáttanna né gerð, og skilningur allra var sá, að hér væri alls ekki um hefðbundna kostun að ræða, enda upphæðin mun lægri en svo að dyggði til kostunar þáttanna. H leit svo á að hér væri um menningarstarfsemi að ræða, skemmtilega tilraun sem rétt væri að styrkja. Spurt er hvort greiða beri virðisaukaskatt af styrkupphæðinni og hvort nota megi innskatt vegna launa tökumanns og kaupa á myndbandsspólum.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að kvikmyndagerð sem stunduð er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Listrænt gildi kvikmynda skiptir ekki máli í þessu sambandi. Þannig er framleiðsla leikinna íslenskra kvikmynda skattskyld starfsemi. Sama gildir um gerð heimildamynda fyrir ríkisstofnanir, einkafyrirtæki eða sjónvarpsstöðvar, svo og gerð auglýsingamynda.

Kvikmyndafyrirtæki skal innheimta og skila virðisaukaskatti af skattskyldum tekjum sínum. Jafnframt er virðisaukaskattur af aðföngum frádráttarbær að fullu sem innskattur. Virðisaukaskattur af aðföngum sem varða sýningu íslenskrar kvikmyndar í kvikmyndahúsi, t.d. af auglýsingakostnaði, fæst ekki frádreginn sem innskattur, sbr. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

Hvers kyns auglýsinga- og kynningarþjónusta er skattskyld skv. meginreglum virðisauka-skattslaga. Skattskyldan tekur meðal annars til svonefndra kostunarsamninga, þar sem fyrirtæki (kostunaraðili) lætur fé renna til aðila (kostunarþega) sem aftur á móti lætur af hendi endurgjald af einhverju tagi, oftast auglýsingu eða kynningu á kostunaraðila eða söluvöru hans. Styrktarsamningar af þessu tagi eru meðal annars algengir við þáttagerð í sjónvarpi og aðra kvikmyndagerð. Sé ekki um neitt endurgjald að ræða á sér ekki stað skattskyld afhending á vöru eða þjónustu.

Líta verður á styrk H sem skattskylda kostun, þar sem augljóslega er um kynningu á kostunaraðila að ræða með sérstakri þáttargerðarröð um bæjarfélagið.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson