Dagsetning                       Tilvísun
12. september 1997                            824/97

 

Virðisaukaskattur af þjónustu sem seld er erlendum aðila

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. júlí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af aðstoð við markaðskönnun dansks fyrirtækis hérlendis og ef svo er hvort danska fyrirtækið geti fengið virðisaukaskatt endurgreiddan.

Í bréfi yðar eru eftirfarandi spurningar settar fram:

  1. Á fyrirtækið að reikna virðisaukaskatt á þóknun sína fyrir markaðskönnunina?
  2. Ef svarið við 1 er já, á erlendi aðilinn rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af þóknun sinni til íslenska aðilans?
  3. Á erlendi aðilinn rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af öðrum liðum sem kunna að falla hér til vegna markaðskönnunarinnar?
  4. Ef svör við 2 og 3 eru jákvæð, hvernig óskar Virðisaukaskattsdeildin eftir að haldið sé utan um kostnaðarliði, þannig að auðvelt sé að vega endurgreiðslurétt og meta?

Til svars bréfi yðar þá er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu, enda sé hún að öllu leyti nýtt erlendis, sbr. 10. tölul 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. tölul. 5. gr. laga nr. 55/1997. Við mat á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af umræddri þjónustu skiptir því höfuðmáli hvar þjónustan telst vera nýtt. Markaðskannanir teljast almennt vera nýttar þar sem fyrirtækið (kaupandi) hefur starfsstöð enda sé það þá viðkomandi fyrirtæki sem nýtir niðurstöðurnar. Hins vegar verður að telja afhendingarstað og þá jafnframt nýtingarstað þjónustu vera hér á landi ef hinn erlendi aðili kaupir þjónustu til nota fyrir verkefni sem hann vinnur hér á landi.

Af bréfi yðar má ráða að hið íslenska félag veitir hinu erlenda félagi aðstoð sína hér á landi til nota við vinnu erlenda félagsins hérlendis, þ.e. afhendingin svo og nýting þjónustunnar fer fram hérlendis. Að áliti ríkisskattstjóra er því ljóst að þjónusta hins innlenda fyrirtækis er nýtt hérlendis í þágu hins erlenda aðila við framkvæmd markaðskönnunar hérlendis.

Af framansögðu virtu ber fyrirtæki yðar að innheimta virðisaukaskatt af umræddri þjónustu. Hinn erlendi aðili getur hins vegar fengið endurgreiðslu virðisaukaskatts af keyptri þjónustu hér á landi vegna markaðskönnunarinnar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Til frekari upplýsinga um endurgreiðslurétt, gögn vegna endurgreiðslu og önnur skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja er bent á meðfylgjandi reglugerð nr. 288/1995.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattsjóra,

Vala Valtýsdóttir.