Dagsetning                       Tilvísun
17.05.2006                              10/06

 

Virðisaukaskattur af þjónustu við erlenda aðila – þjónusta ekki nýtt að öllu leyti erlendis

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. janúar 2006, þar sem spurst er fyrir um virðisaukaskatt af þjónustu við erlenda ferðaskrifstofu.

Í bréfi yðar kemur fram að þér hafið veitt svissneskri ferðaskrifstofu ráðgjafaþjónustu. Annars vegar vegna riftunar á samningi ferðaskrifstofunnar sem gerður hafði verið við íslenskan aðila um kaup á fjórum erlendum ferðaskrifstofum og útibúum þeirra og hins vegar gerð nýs samnings um kaup á einni af áðurnefndum ferðaskrifstofum. Spurst er fyrir um hvort að nefnd þjónusta sé virðisaukaskattsskyld.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Skattskyldusvið laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er afmarkað í 2. gr. þeirra laga. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. nær skattskyldusviðið til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema byggt verði á einhverju undanþáguákvæða 3. mgr. 2. gr. Að mati ríkisskattstjóra verður sú þjónusta sem lýst er í erindi yðar ekki felld undir nokkurt þeirra ákvæða sem upp eru talin í 3. mgr. og telst því skattskyld.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1988 telst sérhver afhending vöru og þjónustu gegn greiðslu til skattskyldrar veltu nema undanþága verði byggð á einhverju ákvæða 12. gr. sömu laga. Samkvæmt 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. getur sala á þjónustu til aðila búsettra erlendis talist til undanþeginnar veltu í tilteknum tilvikum. Það er þó aðeins þjónusta tiltekinnar tegundar sem felld verður hér undir, sbr. 4. málsl. töluliðarins. Ráðgjafarþjónusta og lögfræðiþjónusta er talin upp í staflið c. og verður ekki annað séð en að sú þjónusta sem að þér veittuð viðskiptavini yðar falli þar undir.

Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi telst ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis, sbr. 1. málsl. 10. tölul. Fram kemur í bréfi yðar að ráðgjafaþjónusta sú er þér veittuð hafi nýst í lögskiptum svissnesku skrifstofunnar við íslenskan aðila og verður því ekki talið að þjónusta yðar hafi nýst að öllu leyti erlendis.

Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi er jafnframt undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. vskl. er þjónusta ferðaskrifstofa undanþegin virðisaukaskatti. Fram kemur í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 50/1988 að undanþágan taki eingöngu til þeirrar þjónustu að hafa milligöngu um ferðaþjónustu, þ.e. koma á viðskiptum milli neytenda og seljenda ferðaþjónustu. Undanþágur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Að þeim forsendum gefnum að starfsemi hins erlenda aðila falli undir undanþáguákvæði 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 uppfyllir sú þjónusta er þér veittuð ferðaskrifstofunni ekki skilyrði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. sömu laga og telst hún því til virðisaukaskattsskyldrar veltu.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Ríkisskattstjóri