Dagsetning                       Tilvísun
11. desember 1996                             771/96

 

Virðisaukaskattur af þjónustu við gúmmíbjörgunarbáta

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. ok­tó­ber 19­96, þar sem spurst er fyrir um, hvort þjónusta við eftir­lit og endurnýjun gúmmí­björgunar­báta skipa og búnaði þeim tengdum, sé undan­þegin virðis­auka­skatti skv. 7. tl. 12. gr. laga um virðis­auka­skatt.

Í bréfi yðar kemur fram að um er að ræða fé­lag sem selur þjónustu í formi reglu­bundins og til­fall­andi eftir­lits og endurnýjunar á gúmmíbjörgunarbátum skipa og búnaði þeim tengdum. Vinna þessi og þjónusta fer al­fa­rið fram á starfs­stöð fé­lagsins, það sér hvorki um að taka bátana niður, né að setja þá upp aftur.

Til skattsskyldrar veltu telst ekki viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og fastan útbúnað þeirra. Sama gildir um efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina notar og lætur af hendi við þá vinnu sbr. 7. tl. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Með föstum útbúnaði skips er eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga aðallega átt við útbúnað sem er fastur við skip, t.d. fjarskiptabúnaður, ratsjá, og önnur siglingatæki, en nær einnig til björgunarbáta og annars öryggisútbúnaðar.

Umrætt ákvæði á ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtæki selur tæki, búnað, efni eða varahluti í skip án þess að annast sjálft viðgerð eða uppsetningu.

Í bréfi yðar kemur fram að fyrirtækið sem um ræðir hvorki tekur björgunarbátana niður né kemur þeim aftur fyrir um borð. Því tekur ákvæði 7. tl. 12. gr. virðisaukaskattslaga ekki til þeirrar þjónustu sem um getur í bréfinu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir