Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 148/1990
Virðisaukaskattur af tjaldstæðum o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. mars sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort tilgreindir þættir í starfsemi Náttúruverndarráðs séu virðisaukaskattsskyldir.
Til svars erindinu skal fyrst tekið fram að opinberum aðilum, svo sem Náttúruverndarráði, er aðeins skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð að því leyti sem þeir selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra telst starfsemi vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi þessa ákvæðis þegar sambærileg vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum og skiptir ekki máli í því sambandi þótt opinberri stofnun sé með lögum eða stjórnvaldsreglum sérstaklega falið að veita ákveðna þjónustu eða öðrum sérstaklega skylt að neyta þeirrar þjónustu.
Um einstök atriði sem fram koma í bréfi yðar skal eftirfarandi sagt:
- Tjaldsvæði. Samkvæmt 8. tölul.3. mgr.2. gr. laga um virðisaukaskatt er fasteignaleiga, þar með talin leiga hótel- og gistiherbergja, undanþegin virðisaukaskatti. Að mati ríkisskattstjóra ber að skýra lagaákvæði þetta svo að sala gistiþjónustu sé almennt undanþegin virðisaukaskatti. Þannig telst leiga tjaldstæða undanþegin. Sama gildir um tengda þjónustu, þ.e. aðgang að snyrtingu og sturtum, hvort sem hún er innifalin í aðgangseyri að tjaldsvæði eða seld sérstaklega.
- Leiga lausafjármuna. Leiga lausafjár í atvinnuskyni, þ.m.t. leiga á tjöldum og útilegubúnaði, er skattskyld starfsemi, sbr.2. mgr.2. gr. laga um virðisaukaskatt.
- Verslunarrekstur á tjaldsvæðum. Rekstur verslunar, t.d. með póstkort og landakort, er skattskyld starfsemi.
- Sala eigin útgáfu. Í bréfi yðar segir um þennan þátt að bæklingar um þjóðgarða séu innifaldir í gistigjaldi, en einnig seldir í lausasölu. Þá eru útgáfur ráðsins, svo sem fjölrit, lesarkir og bæklingar, seldar á skrifstofu þess.
Sala eða afhending bóka, blaða, tímarita og hvers konar útgáfu af öðru tagi, sem fram fer í atvinnuskyni, er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Að áliti ríkisskattstjóra gildir sú viðmiðun einnig um útgáfu á vegum opinberra aðila.
Sala blaða og tímarita er undanþegin skattskyldri veltu (ber „núll-skatt“). Sama er að segja um sölu bóka á íslensku frá og með l. september 1990. Um þetta og ýmis almenn atriði vegna útgáfu og sölu tímarita og bóka er fjallað í bréfum ríkisskattstjóra, dags. 16. mars og 24. ágúst 1990, sem hjálagt sendist yður til fróðleiks.
Ennfremur skal tekið fram að ef skráður aðili afhendir vöru án sérstaks endurgjalds ber að ákveða skattverð (það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af) samkvæmt reglum 2. mgr. 8. gr. virðisaukaskattslaga, þ.e. miða skal skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Verður því að telja – ef Náttúruverndarráð er skráningarskyldur aðili vegna útgáfustarfsemi sinnar – að ráðinu beri að skila virðisaukaskatti af þeim hluta gistigjaldsins sem nemur andvirði bæklinga sem gestir fá. Andvirði bæklinganna ákveðst þá miðað við lausasöluverð þeirra.
- Virðisaukaskattur af aðföngum. Undanþágur skv. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, svo sem vegna gististarfsemi, ná eingöngu til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. Þar af leiðir að virðisaukaskattur sem greiddur er við kaup aðfanga sem varða undanþegnu starfsemina fæst ekki endurgreiddur sem innskattur.
Í þessu sambandi skal tekið fram að ríkisstofnanir fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á ákveðinni vinnu og þjónustu, sbr. nánar 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.
- Eftirlit með mannvirkjagerð. Í 37. og 38. gr. reglugerðar nr. 205/1973, um náttúruvernd, með áorðnum breytingum, er þeim sem hyggja á mannvirkjagerð sem gæti spillt umhverfinu gert skylt að leita álits Náttúruverndarráðs áður en framkvæmdir hefjast og skal hönnun ýmissa mannvirkja vera í samráði við Náttúruverndarráð. Í 39. gr. reglugerðarinnar segir m.a.: „Nú telur Náttúruverndarráð nauðsynlegt, að fram fari vettvangsathugun, aflað verði álits sérfræðings eða sérfræðinga, áður en álit ráðsins skv. 37. og 38. gr. er látið í té, svo og að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með framkvæmd, og ber þá framkvæmdaaðila þeim, sem í hlut á að endurgreiða ráðinu kostnað, sem það hefur af slíku.“
Í bréfi yðar kemur fram að í flestum tilfellum er þetta eftirlit unnið af sérstökum eftirlitsmönnum, er gera ráðinu reikning fyrir vinnu sinni, en að hluta af starfsmönnum ráðsins. Ráðið innheimtir þennan kostnað yfirleitt með álagningu, þ.e. á útseldum taxta.
Að áliti ríkisskattstjóra er hér um að ræða sölu á sérfræðiþjónustu, sem sambærileg er þjónustu sérfræðinga á almennum markaði, og ber ráðinu að innheimta virðisaukaskatt af framantalinni þjónustu, með þeirri álagningu sem á hana er lögð, þ.e. á útsöluverði. Um innskatt vegna þessarar þjónustu fer eftir almennum ákvæðum í lögum um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.