Dagsetning Tilvísun
26. mars 1997 792/97
Virðisaukaskattur af umboðslaunum (söluþóknun) frá erlendum aðila.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. janúar 1997, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af umboðalaunum frá erlendum aðila.
Í bréfi yðar er viðskiptum aðila lýst á þann veg að innlendur aðili kemur á viðskiptum á milli erlends aðila og endanlegs kaupanda hér á landi. Fyrir þessi viðskipti fær hinn innlendi aðili greidd umboðslaun (söluþóknun) frá hinum erlenda aðila. Síðan er spurt hvort hinum innlenda milligöngumanni beri að innheimta virðisaukaskatt af umræddum umboðslaunum.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. Ekki er að finna neina undanþágu fyrir milligöngu um sölu á vörum í lögum um virðisaukaskatt.
Hins vegar gildir öðru máli um þau tilvik þegar vara er flutt til landsins þá eru umboðslaun og miðlaraþóknun (þó ekki kaupumboðslaun) innifalin í tollverði vörunnar að svo miklu leyti sem þau eru borin af kaupanda, sbr. 9. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að ekki beri að innheimta og skila virðisaukaskatti af slíkum umboðslaunum þar sem innheimtan hefur farið fram við innflutning vörunnar.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.