Dagsetning                       Tilvísun
21. mars 1991                             258/91

 

Virðisaukaskattur af útfararþjónustu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. janúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna útfararþjónustu.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt 14. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er útfararþjónusta og prestsþjónusta hvers konar undanþegin virðisaukaskatti. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ákvæðið til líkbrennslu, greftrunar, líkflutninga og annarrar þjónustu í þessu sambandi. Ákvæðið tekur ekki til sölu á kertum, blómum og þess háttar til skreytingar í kirkju eða kirkjugarði. Sömuleiðis tekur ákvæðið ekki til sölu á líkkistum, líkklæðum eða annarrar vörusölu vegna útfarar. Slík vörusala í atvinnuskyni er skattskyld (skráningarskyld), enda nemi samtals sala 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1991). Skráðum aðilum er heimilt samkvæmt almennum reglum að draga innskatt frá innheimtum virðisaukaskatti.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laganna tekur undanþága frá virðisaukaskatti skv.3. mgr. aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af     aföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. Af því leiðir að kirkjugarðsstjórninni ber að greiða virðisaukaskatt til verktaka sem hún kaupir af skattskylda þjónustu,    t.d. vinnuvélaþjónustu vegna grafartöku. Engin heimild er til að endurgreiða kirkjugarðsstjórninni þennan skatt.

Eigin vélavinna, svo sem vegna grafartöku, felur ekki í sér skyldu til að greiða virðisaukaskatt, enda ekki sérstaklega tilgreint í reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.

K eru sjálfseignarstofnanir, sbr. lög nr. 21/1963, um kirkjugarða, og því eiga ákvæði reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, ekki við um þá.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.