Dagsetning Tilvísun
27. ágúst 1993 519/93
Virðisaukaskattur af útgáfustarfsemi
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. júní 1993, þar sem þér óskið eftir viðhorfi fjármálaráðuneytis til þess hvort leggja beri virðisaukaskatt á dómasafn Hæstaréttar. Bréf yðar var framsent af fjármálaráðuneytinu þann 24. ágúst s.l. til afgreiðslu hjá embætti ríkisskattstjóra.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að útgáfa prentvarnings er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Þó er starfsemi ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993). Það fer svo eftir eðli prentvarnings hvort hann ber 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
Opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, og stofnanir og fyrirtæki þeirra, eru skráningarskyldir að því leyti sem þeir selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri lítur svo á að sala opinberra aðila á ritum, sem þeir gefa út, sé aðeins skráningarskyld ef þessar vörur eru seldar með hagnaði. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af þessari starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Útgáfa og sala Hæstaréttar á dómasafni telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki og því ekki skráningarskyld starfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.