Dagsetning                       Tilvísun
28. september 1993                            548/93

 

Virðisaukaskattur af útgáfustarfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. janúar 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig skuli fara með virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi F. Fram kemur að efni það sem um er að ræða eru kynningarbæklingar á erlendum tungumálum um Ísland, auglýsingaspjöld, litskyggnur, ársskýrsla ráðsins, fundargerðir ferðamálaráðstefna, skýrslur erlendra ferðamálasamtaka um einstakar markaðskannanir og listar yfir innlendar og erlendar ferðaskrifstofur.

Til svars erindinu skal tekið fram að útgáfa prentvarnings er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, og stofnanir og fyrirtæki þeirra, eru skráningarskyldir að því leyti sem þeir selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni – og þar af leiðandi skráningarskyld – er aðallega mið að við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af starfsemi eru alltaf, eða nánast alltaf, lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Að áliti ríkisskattstjóra gildir þessi viðmiðun einnig um útgáfu á vegum opinberra aðila.

Með vísan til þess, sem fram kemur í bréfi yðar, að kynningarefni það, sem hér um ræðir, sé ekki í neinu tilliti selt í samkeppni við aðra aðila, er það álit ríkisskattstjóra að F sé ekki virðisaukaskattsskylt vegna umræddrar útgáfustarfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarsson