Dagsetning Tilvísun
11. janúar 1994 607/94
Virðisaukaskattur af útgáfustarfsemi
Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. nóvember 1993, þar sem óskað er upplýsinga um hvort ríkisskattstjóri geti fallist á það með A að eðlilegt sé að hluti árbókar, sem er innifalin í árgjaldi félagsins, skuli teljast jafnhár þeim framleiðslukostnaði bókarinnar sem virðisaukaskattur er greiddur af.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að ef þegar skráður aðili afhendir vöru án sérstaks endurgjalds ber að ákveða skattverð (það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af) samkvæmt reglum 2. mgr. 8. gr. virðisaukaskattslaga, sem kveður á um að miða skuli skattverð við almennt gangverð í samskonar viðskiptum. Ef slíkt almennt gangverð liggur ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi, sbr. 2. ml. 2. mgr. 8. gr.
Samkvæmt upplýsingum þeim er fram koma í bréfi yðar er árbókin seld í lausasölu til annarra en félagsmanna. Af því má sjá að þar sé fundið almennt gangverð bókarinnar og það sem miða skal við er finna skal út hluta bókarinnar í félagsverðinu, þótt ekki sé hægt að telja óeðlilegt að félagsmenn njóti einhvers afsláttar af umræddri árbók.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson