Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             232/91

 

Virðisaukaskattur af útgáfustarfsemi Alþingis.

Fjármálaráðuneytið hefur framsent ríkisskattstjóra til afgreiðslu bréf yðar, dags. 17. janúar 1991, varðandi virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi Alþingis. Um er að ræða útgáfu og sölu Alþingistíðinda og bókar um málefni Íslands og Evrópu. Fram kemur í bréfinu að tekjur af þessari útgáfustarfsemi eru mun lægri en tilkostnaður.

Til svars erindinu skal tekið fram að sala eða afhending bóka, blaða, tímarita og hvers konar útgáfu af öðru tagi, sem fram fer í atvinnuskyni, er virðisaukaskattskyld starfsemi. Útgáfustarfsemi opinberra stofnana er skráningarskyld (skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt) að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni – og þar af leiðandi skráningarskyld – er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Að áliti ríkisskattstjóra gildir þessi viðmiðun einnig um útgáfu á vegum opinberra aðila.

Með vísan til þess, sem fram kemur í bréfi yðar, að tekjur af sölu útgáfurita Alþingis standa engan vegi.n undir útgáfukostnaði er það álit ríkisskattstjóra að Alþingi sé ekki skráningarskylt vegna þeirrar starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.