Dagsetning                       Tilvísun
25. júní 1990                             101/90

 

Virðisaukaskattur af útgáfustarfsemi ferðafélags.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 2. maí og 8. júní 1990, þar sem gerð er grein fyrir þeim þætti í starfsemi félagsins sem lýtur að útgáfu rita til upplýsinga um starf félagsins og til áréttingar á meginmarkmiðum þess. Er hér um að ræða annars vegar útgáfu árlegs rits (Árbókar) og hins vegar útgáfu fréttabréfs sem kemur út nokkrum sinnum á ári. Félagsmenn fá bæði ritin fyrir félagsgjald sitt og segir í bréfi yðar að hvorugt hafi verið verðlagt til þeirra sérstaklega.

Um almenn atriði varðandi útgáfustarfsemi félagasamtaka vísast til meðfylgjandi bréfs ríkisskattstjóra frá 16. mars sl. Í lið B-2 eru tilgreindar þær viðmiðunarreglur sem ráða því hvort útgáfa á vegum félagasamtaka sé skráningarskyld eða ekki.

Með hliðsjón af efni Árbókar félagsins og samfelldri útgáfu hennar í yfir 60 ár fellst ríkisskattstjóri á það sjónarmið yðar að um útgáfu tímarits sé að ræða. Ritið virðist hafa almennt markaðsgildi; það er selt á almennum markaði og eldri Árbækur eru seldar félagsmönnum sérstaklega. Þá eru rit með hliðstæðum lýsingum á landinu og sögu þess gefin út af atvinnufyrirtækjum. Að þessu athuguðu er það álit ríkisskattstjóra að útgáfa árbókarinnar sé skráningarskyld starfsemi. Samkvæmt framansögðu tekur ákvæði 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt til starfseminnar.

Útgáfa fréttabréfs félagsins sem aðallega flytur félagsmönnum fréttir um starf félagsins – er ekki skráningarskyld starfsemi, enda ekki markaðsvara með sambærilegum hætti og Árbækurnar.

Samkvæmt framansögðu nýtur félagið innskattsfrádráttar vegna útgáfukostnaðar Árbókarinnar, en ekki er heimilt að telja til frádráttar neinn virðisaukaskatt vegna útgáfu fréttabréfs. Vegna bréfs yðar frá 2. maí skal tekið fram að starfsemi rithöfunda er undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þar af leiðandi eiga höfundar Árbóka ekki að innheimta virðisaukaskatt af greiðslum fyrir ritstörf sín og skipir þá ekki máli hvort greiðslurnar eru launagreiðslur eða verktakagreiðslur. Tilkynna skal um virðisaukaskattsskylda starfsemi til skattstjóra í viðkomandi umdæmi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.