Dagsetning Tilvísun
7. júní 1994 636/94
Virðisaukaskattur af útleigu tjaldstæða
Vísað er til símbréfs yðar dags. 1. júní s.l. og símtals við yður sama dag þar sem óskað er upplýsinga um hve háan virðisaukaskatt beri að leggja á útleigu tjaldstæða og þá hvort einhver munur sé á að leigja stæði fyrir tjald, fellihýsi, hjólhýsi eða ferðabíl.
Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt 2. tl. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber útleiga tjaldstæða 14% virðisaukaskatt. Aðgangur að snyrtingu og sturtum á tjaldstæði telst hluti af gistiþjónustunni og því skattskyldur í sama skatthlutfalli, hvort sem sú þjónusta er innifalin í aðgangseyri að tjaldstæði eða seld sérstaklega. Hvort gist er í fellihýsi, hjólhýsi, tjaldi eða ferðabíl skiptir ekki máli ef þjónustan sem keypt er, er sú sama. Ef aftur á móti er keypt aðstaða fyrir hjólhýsi til lengri tíma og þeirri leigu fylgir meiri þjónusta s.s. tenging við rafmagn og vatn, telst það aðstöðuleiga og ber 24,5% virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir