Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             201/91

 

Virðisaukaskattur af útseldri vinnu lögreglumanna og tollvarða.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. mars sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af útseldri vinnu lögreglumanna og tollvarða til ýmissa aðila, svo sem V, verktaka og flugfélaga. Segir í bréfinu að slík vinna geti verið vegna hliðvörslu lögreglumanna, vinnu tollvarða í tollfrjálsum forðageymslum, útköll utan fasts vinnutíma og tolleftirlit vegna verktakastarfsemi.

Til svars erindinu skal tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra er útseld vinna lögreglumanna og tollvarða af því tagi sem nefnd er í bréfi yðar ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber yður ekki að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir umrædda vinnu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.