Dagsetning                       Tilvísun
22. júní 1992                            407/92

 

Virðisaukaskattur af útseldri vinnu opinberra stofnana.

Með bréfi yðar, dags. 30. mars 1992, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort vinna Náttúrufræðistofnunar Íslands við jarðfræðikortagerð sé virðisaukaskattsskyld. Fram kemur að Orkustofnun hefur sams konar starfsemi með höndum og innheimtir virðisaukaskatt af verkkaupum sínum.

Til svars erindinu vísar ríkisskattstjóri til bréfs embættisins til Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 19. desember 1991. Eins og þar kemur fram er stofnunum eða fyrirtækjum ríkis eða sveitarfélaga skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu felst m.a. að opinber stofnun er ekki virðisaukaskattsskyld vegna sölu á sérfræðiþjónustu o.s.frv. nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.

Ríkisskattstjóri hefur ekki upplýsingar um hvort jarðfræðikortagerð sé seld af atvinnufyrirtækjum, svo sem verkfræðistofum. Hins vegar verður að ætla að opinberum stofnunum sé sjálfum kunnugt um hvort þær starfi í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Þeim ber þá af sjálfsdáðum að tilkynna um skattskylda starfsemi sína til skattstjóra og innheimta og skila skatti af skattskyldri veltu. Það skal tekið fram að ríkisskattstjóri lítur svo á að ekki sé um að ræða samkeppni við atvinnufyrirtæki þótt tvær eða fleiri ríkisstofnanir selji sams konar þjónustu, enda byggist hugsanleg skattskylda þeirra einungis á 4. tölul. l. mgr. 3. gr. vskl.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.