Dagsetning                       Tilvísun
2. mars 1992                            389/92

 

Virðisaukaskattur af varahlutum í flugvélar og vörum til endursölu um borð i millilandaförum.

Með bréfi yðar, dags. 22. október 1991, er óskað leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af varahlutum um borð í flugvélar og af vörum til endursölu um borð í flugvélum í millilandaflugi. Fram kemur í erindinu að fyrirtækið hefur greitt virðisaukaskatt í tolli af varahlutum og af þeim vörum sem það selur um borð í flugvélum sínum.

Um virðisaukaskatt af varahlutum vegna loftfara.

Ríkisskattstjóri tekur fram að flugfélög, sem hafa fólksflutninga með höndum, eru skráningarskyld vegna eigin vinnu við viðgerðir og viðhald loftfara sinna, sbr. 2. gr. reglug. nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Þessum aðilum ber skv. 4. gr. reglugerðarinnar að tilkynna skattstjóra um skattskylda starfsemi sína.

Viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 7. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Því eru flugfélög undanþegin skyldu til að reikna og skila útskatti af eigin viðgerðar og viðhaldsvinnu. Þau njóta innskattsfrádráttar vegna þessarar starfsemi samkvæmt almennum reglum laga um virðisaukaskatt ef hún fer fram í sérstakri þjónustudeild, sbr. l. tölul. 3. gr. nefndrar reglugerðar. Þjónustudeild skal uppfylla bókhaldsskilyrði 5. og 6. gr. reglugerðarinnar, þ.e. vera aðgreind í bókhaldi frá öðrum þáttum starfseminnar og haga skráningu á afhendingu vöru og þjónustu með fyrirfram skipulögðum hætti. Fari starfsemi ekki fram í sérstakri þjónustudeild gilda ákvæði 2. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar um uppgjör virðisaukaskatts og er þá ekki um innskattsfrádrátt að ræða.

Í tilkynningu til skattstjóra skal koma fram númer og heiti bókhaldsreikninga þar sem tekjur og gjöld vegna hinnar skattskyldu viðgerðar- og viðhaldsvinnu eru færð.

Af framangreindu leiðir að ef flugfélag rekur viðgerðardeild, sem fellur undir 1. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar, getur það m.a. talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem deildin greiðir við tollmeðferð varahluta.

Um virðisaukaskatt af vörum til sölu um borð í millilandaförum.

Flugfélag, sem heimili á hér á landi eða rekur hér á landi fasta starfsstöð, er skráningarskylt samkvæmt almennum reglum laga um virðisaukaskatt vegna sölu um borð í millilandaförum sínum.

Af skráningu leiðir að félagið getur talið virðisaukaskatt af kaupum og eigin innflutningi á vöru, sem ætluð er til endursölu um borð í millilandafari, til innskatts og þannig fengið hann endurgreiddan úr ríkissjóði. Sala um borð í millilandafari er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 1 tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt (útflutningur).

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.