Dagsetning                       Tilvísun
24.05.2006                              11/06

 

Virðisaukaskattur af varahlutum – innskattur – útlagður kostnaður.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. febrúar 2006, þar sem óskað er umsagnar ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts hjá umbjóðanda yðar, A ehf.

Í bréfi yðar segir að umbjóðandi yðar reki X tölvuverslanirnar á Íslandi og sé hann umboðsaðili fyrir tölvubúnað frá Z í Þýskalandi hér á landi. Í stað þess að starfrækja eigin verkstæði hafi umbjóðandi yðar gert samning við R á Íslandi ehf. um að gera við bilanir í tölvubúnaðinum. Z hafi ábyrgst gagnvart umbjóðanda yðar að útvega varahluti og greiða viðgerðakostnað vegna bilana á ábyrgðartíma. Bent er á að A ehf. sé eigandi varahlutanna við innflutning þeirra en að R á Íslandi ehf. leggi út fyrir virðisaukaskatti sem lagður sé á varahlutina við innflutning þeirra til landsins. Að lokum kemur fram að í stað þess að gera A ehf. reikning vegna viðgerða geri R á Íslandi ehf. reikning á Z vegna viðgerða og stafar það af þeirri kröfu S, dótturfélags Z, sem samþykkir reikninga, að reikningum fylgi nákvæmar og sundurliðaðar upplýsingar um viðgerðir áður en reikningar eru samþykktir. Óskið þér eftir staðfestingu á þeim skilningi A ehf. að sá virðisaukaskattur sem R á Íslandi ehf. greiðir við innflutning varahlutanna sé útlagður kostnaður, sem félaginu sé heimilt að telja til innskatts eftir að hann hefur verið endurgreiddur til R á Íslandi ehf.

Til svars fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Miðað við þá gefnu forsendu að A ehf. flytji umrædda varahluti til landsins í því augnamiði að bæta viðskiptamönnum sínum galla á söluvarningi félagsins er uppfyllt það efnisskilyrði til færslu innskatts að um aðföng til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sé að ræða, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Þá verður af málavaxtalýsingu ekki annað ráðið en að greiðsluskjöl frá tollyfirvöldum vegna innheimts virðisaukaskatts við tollmeðferð séu gefin út á nafn A ehf. sem innflytjanda varahlutanna. Miðað við þá forsendu eru uppfylltar kröfur til skjala sem innskattsfærslur eru byggðar á, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Miðað við hinar gefnu forsendur getur A ehf. því fært umræddan virðisaukaskatt af innflutningi varahluta til innskatts í bókhaldi sínu og uppgjöri virðisaukaskatts.

Vegna aðkomu R á Íslandi ehf. að innflutningi varahlutanna, eins og henni er lýst í fyrirspurnarbréfi, vekur ríkisskattstjóri athygli á ákvæði 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993. Þar er kveðið á um að kostnaður sem seljandi hefur lagt út fyrir kaupanda þurfi ekki að teljast til skattverðs seljanda, enda endurkrefji hann kaupanda um kostnaðinn án nokkurs álags eða þóknunar, sölureikningur vegna kostnaðarins sé skráður á nafn kaupanda sem fái í hendur frumrit reikningsins ásamt uppgjöri. Virðisaukaskattur vegna þessara innkaupa er ekki hluti innskatts seljanda.

Ríkisskattstjóri gerir athugasemd við það sem fram kemur í fyrirspurnarbréfi að R á Íslandi ehf. geri reikning á hendur Z vegna þeirrar viðgerðarþjónustu sem það innir af hendi fyrir A ehf. Það háttarlag samrýmist ekki ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 þar sem kveðið er á um að á sölureikningi skuli tilgreina nafn og kennitölu kaupanda. Hvorki er um fullnægjandi tekjuskráningu að ræða hjá R á Íslandi ehf. né getur A ehf. byggt innskattsfærslu á reikningi sem gefinn er út á hendur þriðja aðila. Breytir þar engu um hvernig háttað kunni að vera samningum A ehf. og erlends framleiðanda söluvara um ábyrgð vegna galla á vörunum.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Ríkisskattstjóri