Dagsetning Tilvísun
16. nóv. 1990 172/90
Virðisaukaskattur af viðgerðarvinnu við flugvélar.
Með bréfi yðar, dags. 19. maí 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af allri þjónustu og sölu fyrirtækisins eða aðeins þjónustu og sölu fyrir einkaflugvélar.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er viðgerðar- og viðhaldsvinna við loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og sala varahluta sem viðgerðaraðili notar í því sambandi, undanþegin skattskyldri veltu.
Með föstum útbúnaði loftfars er – eins og fram kemur i greinargerð frumvarps til laga um virðisaukaskatt – aðallega átt við útbúnað sem er fastur (nagl- eða skrúfufastur) við farið, t.d. fjarskiptabúnaður, ratsjá og önnur siglingatæki, en ákvæðið nær þó einnig til öryggisbúnaðar. Lausafé um borð í loftfari telst ekki til fasts útbúnaðar í þessu sambandi. Ný tæki sem fyrirtækið setur niður loftfar falla undir ákvæðið.
Undanþáguákvæðið á ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtækið selur tæki, búnað eða varahluti í loftfar án þess að annast sjálft viðgerð eða niðursetningu. Þá á ákvæðið ekki við um vinnu á verkstæði ef fyrirtækið setur tæki það eða útbúnað, sem til viðgerðar er, ekki sjálft niður í viðkomandi loftfar.
Einnig skal tekið fram að ákvæðið nær ekki til einkaloftfara og skal því ætíð innheimta virðisaukaskatt af viðgerðar- og viðhaldsvinnu, svo og efni og varahlutum til þeirra.
Þeir aðilar sem selja þjónustu og vörur samkvæmt þessari undanþágu skulu geta þess á reikningi við hvaða loftfar var unnið og skal flugrekstraraðili staðfesta með yfirlýsingu og áritun á afrit reiknings að þjónustan varði loftfar í rekstri hans.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.