Dagsetning Tilvísun
15. nóvember 1994 573/93
Virðisaukaskattur af vöruflutningum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. október 1993, þar sem óskað er eftir svari ríkisskattstjóra við því hvernig erlent skipafélag fer að því að komast hjá því að greiða virðisaukaskatt af viðskiptum sem eru undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. tl. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Einnig er spurt hvernig sama félag eigi að fara að því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af sömu viðskiptum sem það hefur þegar greitt.
Eins og fram kemur í bréfi yðar eru vöruflutningar milli landa undanþegnir skattskyldri veltu. Sama gildir um vöruflutninga innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Sú undanþága leiðir af undanþágu millilandaflutninga og er sett vegna þess að erfitt kann að vera að skipta flutningskostnaði, t.d. vegna flutninga með skipi sem kemur við á mörgum höfnum innan lands áður en það kemur til endanlegs áfangastaðar. Þá er reglunni og ætlað að girða fyrir möguleika á tvísköttun þar sem frádráttur virðisaukaskatts kemur ekki til greina þegar flutningskostnaður er greiddur af erlendum aðila.
Skilyrði þess að undanþágan taki til vöruflutninga. innan lands er að flutt sé beint til eða frá landinu. Þetta skilyrði er skýrt þannig að undanþágan taki í einstöku tilviki aðeins til þeirra vöruflutninga innan lands sem flutningsaðili tekur að sér samkvæmt flutningssamningi um flutning vöru frá tilteknum stað erlendis til tiltekins staðar innan lands eða öfugt. Þannig getur skráður aðili sem tekið hefur að sér að flytja vöru til eða frá landinu haldið öllu flutningsgjaldinu utan skattskyldrar veltu þótt hluti þess sé vegna vöruflutnings sem fram fer hérlendis, t.d. framhaldsflutning á innlenda höfn eða, eins og aðstæður eru í þessu tilviki, akstur til viðtakanda vöru.
Þeir sem selja flutningsþjónustu innan lands, þ.m.t. aukaþjónustu (veitta hérlendis) af því tagi sem hér er um að ræða, án þess að hún sé í beinum tengslum við millilandaflutning þeirra sjálfra, hafa ekki heimild til að selja þá þjónustu sína án virðisaukaskatts, heldur skulu þeir innheimta virðisaukaskatt af þeirri sölu sinni, hvort sem selt er til innlends eða erlends aðila. Þannig skulu undirverktakar við flutning innan lands innheimta virðisaukaskatt af aðalfarmflytjanda. Jafnframt skal innheimta virðisaukaskatt af flutningsþjónustu sem seld er sérstaklega á.n þess að vera þáttur í farmsamningi.
Aðalfarmflytjandi, þ.e. farmflytjandi samkvæmt farmsamningi, sem kaupir innanlandsflutning eða aukaþjónustu af öðrum skráðum flutningsaðila getur talið virðisaukaskatt af þeim aðföngum til innskatts.
Réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum stofnast fyrst við skráningu. Því geta aðilar, sem ekki eru skráðir skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ekki fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af kaupum aðfanga. Samkvæmt l. tl. l. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 eru þeir skráningarskyldir, skv. 5. gr. sömu laga, sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Hins vegar eru þeir undanþegnir skattskyldu og þar með skráningu sem selja 50/1988, en fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu.
Aðstæður geta þó verið með þeim hætti að eðlilegt sé að skrá aðila skv. 5. gr. virðisaukaskattslaga þótt velta hans sé undir lágmarki skv. 3. tölul. 4. gr. Þetta er einungis gert samkvæmt beiðni aðila og metur skattstjóri í einstökum tilvikum hvort aðstæður séu með þeim hætti að verða við beiðni aðila um skráningu. Skattstjóra er rétt að verða við beiðni aðila um skráningu ef hann telur að eftirfarandi atriði eigi við um aðila:
- Að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starfsemi sem miðar að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma.
- Að fjárfesting aðila í varanlegum rekstrarfjármunum þ.m.t. fasteignum, eða vörubrigðum sé veruleg á sama tíma og eðlilegt er vegna eðlis starfseminnar að hún skili ekki rekstrartekjum. Ekki er nægilegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar.
- Að fjárfesting aðila standi í beinum tengslum við væntanlega sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu.
- Að allar líkur bendi til þess að sala aðila á skattskyldum vörum og þjónustu verði yfir lágmarki skv. 3. tl. 4. gr. á fyrstu 12 mánuðum eðlilegrar starfsemi, þ.e. eftir að starfsemin fer að skila rekstrartekjum.
Í þessu sambandi er rétt að ítreka að réttur til að krefjast endurgreiðslu af aðföngum stofnast fyrst við skráningu og ekki verður talið að aðili geti krafist endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts sem féll á þau kaup hans á aðföngum sem áttu sér stað fyrir skráninguna.
Af framangreindu má sjá að umrætt skipafélag getur ekki fengið skráningu (virðisaukaskattsnúmer) ef engin skattskyld sala fer fram eða sala á skattskyldri vöru eða þjónustu er minni en 185.200 kr. á ári. Þetta þýðir það að ekki er mögulegt að fá skráningu á útibúi eða sérstöku félagi ef einu tekjur útibúsins eða félagsins eru endurgreiddur kostnaður þess frá skipafélaginu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson.