Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             280/91

 

Virðisaukaskattur af vöruflutningum milli landa.

Rétt þykir að gera í samfelldu máli grein fyrir þeim reglum sem gilda um flutningastarfsemi milli landa og túlkun ríkisskattstjóra á þeim. Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 18. maí 1990, um virðisaukaskatt af vöruflutningum, hefur verið fjallað um afmarkaða þætti þessa máls og eru efnisatriði þess felld inn í það sem að neðan segir.

I.

Hvers konar vöruflutningar eru virðisaukaskattsskyld starfsemi. Innlendir aðilar sem hafa vöruflutninga með höndum í atvinnuskyni skulu tilkynna starfsemi sína til skattstjóra, sbr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt (vskl.).

Vöruflutningar milli landa eru undanþegnir skattskyldri veltu (bera „núll-skatt“). Sama gildir um vöruflutninga innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Ákvæði um undanþáguna er í 2. tölul. l. mgr. 12. gr. vskl.

Vöruflutningar milli landa

Með vöruflutningum milli landa er átt við flutning á vöru frá tilteknum stað hér á landi til áfangastaðar erlendis og öfugt. Flutningsþjónusta sem seld er til herliðs Bandaríkjanna hér á landi fellur og undir þetta ákvæði, sbr. 48. gr. vskl.

Vöruflutningar innan lands

Vöruflutningar innan lands eru undanþegnir skattskyldri veltu þegar flutt er beint til eða frá landinu.

Þessi undanþága leiðir af undanþágu millilandaflutninga og er sett vegna þess að erfitt kann að vera að skipta flutningskostnaði, t.d. vegna flutninga með skipi sem kemur við á mörgum höfnum innan lands áður en það kemur til endanlegs áfangastaðar. Þá er reglunni og ætlað að girða fyrir möguleika á tvísköttun þar sem frádráttur virðisaukaskatts kemur ekki til greina þegar flutningskostnaður er greiddur af erlendum aðila.

Skilyrði þess að undanþágan taki til vöruflutninga innan lands

Samkvæmt ákvæðinu er aðeins heimilt að halda endurgjaldi fyrir innanlandsflutning utan skattskyldrar veltu þegar flutt er beint til eða frá landinu. Þetta skilyrði er skýrt þannig að undanþágan taki í einstöku tilviki aðeins til þeirra vöruflutninga innan lands sem flutningsaðili tekur að sér samkvæmt flutningssamningi um flutning vöru frá tilteknum stað innan lands til tiltekins erlends áfangastaðar eða öfugt. Þannig getur skráður aðili sem tekið hefur að sér að flytja vöru til eða frá landinu haldið öllu flutningsgjaldinu utan skattskyldrar veltu þótt hluti þess sé vegna vöruflutnings sem fram fer hérlendis, t.d. framhaldsflutnings á innlenda höfn eða akstur til viðtakanda vöru.

Endurgjald fyrir vöruflutninga innan lands telst að öðru leyti til skattskyldrar veltu skráðs aðila. Sá sem aðeins selur innanlandsflutning getur ekki nýtt undanþáguákvæðið.

Gildissvið undanþáguákvæðisins

Undanþáguákvæði 2. tölul. 1. mgr. l2. gr. vskl. tekur bæði til;

(a)        endurgjalds fyrir hina eiginlegu flutningsþjónustu og

(b)        þóknunar fyrir skattskylda þjónustu sem flutningsaðili innir af hendi hér á landi vegna millilandaflutnings samkvæmt venju í atvinnugreininni. Skilyrði er að flutningssamningur kveði á um þessa aukaþjónustu og hún sé færð á sama sölureikning og hin eiginlega flutningsþjónusta. Til dæmis um aukaþjónustu af þessu tagi má nefna:

– pökkun í flutningsumbúðir, merkingu og vigtun,

– fermingu og affermingu,

– skammæa geymslu i tengslum við flutning,

– umsýslu vegna tollafgreiðslu,

– ritun farmbréfs.

Sönnun þess að undanþágan eigi við innanlandsflutning

Áfangastaður innanlands er sá staður sem tilgreindur er í farmsamningi. Flutningsaðili skal ávallt geta lagt fram áreiðanleg skjöl til sönnunar því að undanþágan taki til þjónustu hans. Þau skjöl geta verið afrit af farmbréfi eða farmreikningi þar sem áfangastaður kemur fram.

II.

Þeir sem selja flutningsþjónustu innan lands – þ.m.t. aukaþjónustu (veitta hérlendis) af því tagi sem að ofan greindi – án þess að hún sé í beinum tengslum við millilandaflutning þeirra sjálfra skulu innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni, hvort sem selt er til innlends eða erlends aðila. Þannig skulu undirverktakar við flutning innan lands innheimta virðisaukaskatt af aðalfarmflytjanda. Jafnframt skal innheimta virðisaukaskatt af flutningsþjónustu sem seld er sérstaklega án þess að vera þáttur í farmsamningi.

Aðalfarmflytjandi (farmflytjandi samkvæmt farmsamningi), sem kaupir innanlandsflutning eða aukaþjónustu, sbr. að ofan, af öðrum skráðum flutningsaðila (undirverktaka), getur talið virðisaukaskatt af þeim aðföngum til innskatts.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.