Dagsetning Tilvísun
3. nóvember 1993 567/93
Virðisaukaskattur af vörum til erlendra skipa.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. apríl 1993, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort erlend skip er koma við hér á landi og kaupa ýmsan varning, aðallega matvörur og rekstrarvörur þurfi að greiða virðisaukaskatt af þessum vörum.
Samkvæmt 5. tl. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt eru vistir,eldsneyti, tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum, svo og sú þjónusta sem veitt er slíkum förum ekki talin til skattskyldrar veltu. Í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga kemur fram hvað sé átt við með millilandafari en þar segir að aðeins sé átt við skip eða loftfar sem notað er til eiginlegrar flutningarstarfsemi milli landa. Ákvæðið gildir jafnt um erlend og innlend millilandaför og hvort sem um er að ræða flutning á vörum eða fólki, þ.m.t. skemmtiferðaskip. Undanþágan gildir ekki um skemmtibáta og einkaloftför.
Ef um fiskiskip er að ræða eða önnur skip er eigi falla undir 5. tl. 12. gr. getur sala til slíkra skipa fallið undir 1. tl. 12. gr. laga um virðisaukaskatt en samkvæmt því ákvæði þá telst vara sem seld er úr landi ekki til skattskyldrar veltu.
Ákvæðið tekur almennt ekki til vöru sem afhent er hérlendis, þótt kaupandi flytji hana síðar úr landi. Undantekning frá þessu er ef vara er afhent beint um borð í erlent skip eða loftfar til nota utan íslenskrar tolllögsögu.
Til sönnunar sölu úr landi skal seljandi hafa í bókhaldi sínu eða bókhaldgögnum eftirtalin skjöl:
- Afrit sölureiknings vegna hinnar útfluttu vöru.
- Afrit útflutningsskýrslu í því formi sem ákveðið er samkvæmt tollalögum nr. 55/1987, áritaða af tollyfirvöldum um útflutning, svo og kvittun flutningsaðila fyrir móttöku sendingar til flutnings úr landi. Sé ekki krafist útflutningsskýrslu vegna sölu úr landi, t.d. þegar vara er send með pósti, nægir kvittun fyrir mót-töku sendingar til flutnings úr landi.
Auk framangreindra gagna skal seljandi varðveita í bókhaldsgögnum sínum skriflega pöntun frá kaupanda og önnur viðskiptabréf varðandi söluna.
Þá má einnig geta þess að samkvæmt reglugerð nr. 247/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, með breytingum skv. reglugerðum nr. 352/1991 og 149/1993 geta erlend fyrirtæki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi. Samkvæmt 1. tl. 1.mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er möguleiki á endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu, eða flutnings á vörum sem þau hafa vegna atvinnustarfsemi sinnar flutt úr landi í eigin nafni. Í 2. gr. reglugerðarinnar koma fram þau skilyrði er uppfylla þarf til þess að endurgreiðsla geti átt sér stað. Skilyrðin eru:
- Að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis.
- Að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi.
- Að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum 15.-16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
Þess má geta að samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar er erlendum aðila heimilt að fela umboðsmanni sínum að sækja um og taka við endurgreiðslu, enda leggi umboðsmaður fram skriflegt umboð þar um.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra.
Grétar Jónasson