Dagsetning                       Tilvísun
6. nóv. 1990                             157/90

 

Virðisaukaskattur – aflahlutdeild fiskiskipa.

Með bréfi yðar, dags. 28. júní 1990, óskið þér eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort viðskipti með aflahlutdeild (aflakvóta) í sjávarútvegi séu skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Segir í bréfinu að um geti verið að ræða sölu á aflakvóta sem veiða á innan ársins og einnig sölu á aflakvóta til frambúóar.

Til svars erindinu skal tekið fram að skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til hvers konar vöru og verðmæta, svo og vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé undanþegin skv. 3. gr. 2. gr. laganna. Framsal óefnislegra réttinda er meðal þeirra viðskipta sem skattskyld eru talin samkvæmt þessum meginreglum. Gildir það að áliti ríkisskattstjóra m.a. um sölu eða leigu á aflahlutdeild skv. lögum nr. 3/1988 og 38/1990, og skiptir ekki máli þótt réttindi þessi séu að stofni til leyfi veitt af hinu opinbera.

Löggjöf um stjórn fiskveiða byggir á því að veiðiheimildir samkvæmt lögunum eru réttindi sem bundin skulu ákveðnu skipi. Þannig er meginregla að aflakvóti fiskiskips fylgir við eigendaskipti þess, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1988 og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990. Heimilt er með vissum takmörkunum að selja veiðikvóta sérstaklega, sbr. 13. gr. laga nr. 3/1988 og 6. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 38/1990, en einnig í þeim tilvikum ber alltaf að tengja þessi réttindi við ákveðin skip.

Samkvæmt 6. tölul. I. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er sala og útleiga skipa undanþegin skattskyldri veltu. Ríkisskattstjóri túlkar lagaákvæði þetta þannig að það taki til aflahlutdeildar sem seld er með skipi eða leigð með skipi.

Lagarök þykja standa til þess að sama gildi um það tilvik þegar aflakvóti er seldur eða leigður sérstaklega, hvort sem það er um lengri eða skemmri tíma. Ljóst er að aflahlutdeild samkvæmt löggjöf um stjórn fiskveiða er í ýmsum tilvikum aðalverðmæti fiskiskips og skip er nánast verðlaust sem atvinnutæki til fiskveiða þegar það er án veiðiheimilda. Tilgangur víðskipta með fiskiskip er og oft sá að flytja aflakvóta milli aðila. Eins og áður sagði skulu veiðiréttindi þó ávallt tengd ákveðnu skipi.

Samkvæmt framansögðu ber að áliti ríkisskattstjóra ekki að reikna útskatt á sölu eða leigu aflakvóta, hvort sem hann er seldur eða leigður sérstaklega um lengri eða skemmri tíma eða seldur eða leigður með skipi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.