Dagsetning                       Tilvísun
7. mars 1996                            725/96

 

Virðisaukaskattur – afskriftir á vörulager

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. janúar sl., þar sem óskað er eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að afskrifa vörulager með sérstökum hætti án þess að vörurnar teljist til skattskyldrar veltu.

Í bréfi yðar er spurt hvort afskrifa megi vörulager í eftirfarandi tilvikum:

A. Varan er gefin og send úr landi (í gegnum hjálparstofnun).
B. Varan er gefin innlendri hjálparstofnun sem ráðstafar gjöfinni að vild.
C. Vörunni er fargað (brennd).

Til svars erindi yðar skal fyrst tekið fram að heimilt er að afskrifa af vörulager gallaðar og úreltar vörur skv. 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.

Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um hvenær framangreint ákvæði á við en að mati ríkisskattstjóra verður skattaðili að geta fært sönnur á að vörur séu gallaðar eða úreltar áður en þessari heimild er beitt. Það myndi m.a. teljast fullnægjandi sönnun ef eitt eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:

  1. Vöru er fargað undir eftirliti opinbers aðila og staðfesting hans um það er geymd í bókhaldi skattaðila.
  1. a. Geymd er í bókhaldi greinargerð um þá vöru sem fargað var þar sem fram komi tegund og magn vörunnar ásamt lýsingu, ástæður förgunar og förgunardagur. Sé vara flutt á sorpeyðingarstöð skal geyma í bókhaldi skattaðila kvittun sorpeyðingarstöðvar um að viðkomandi vöru hafi verið veitt móttaka og vottorð sorpeyðingastöðvar þar sem fram kemur hvaða vöru er fargað.

    b. Skattstjóra skal sannanlega tilkynnt um það með fyrirvara ef áformuð er förgun á verulegu magni enda sé ekki mögulegt að uppfylla skilyrði a.- liðar að framan.
  1. Ef um er að ræða dagstimplaða vöru og ekki er mögulegt að fá vottorð sorpeyðingastöðvar um förgun á vörunni nægir greinargerð eins og lýst er í lið tvö ásamt staðfestingu sorpeyðingarstöðvar/móttökustöðvar um að hafa móttekið vöruna og tilvísun í kreditreikninga ef um endursendar vörur er að ræða.
  1. Einnig er heimilt að mati ríkisskattstjóra að afskrifa vöru af lager vegna galla eða úreldingar ef hún hefur verið afhent líknar- eða góðgerðarfélögum. Skal þá liggja fyrir í bókhaldi gefanda og gjafþega sameiginleg greinargerð um tímasetningu gernings, tegund og magn afhentrar vöru, lýsing vörunnar svo og bókfært kostnaðarverð (eða útsöluverð) hennar. Sé varan flutt úr landi skal liggja fyrir afrit af tollstimplaðri útflutningsskýrslu í bókhaldi gefanda.

Með vísan til framanritaðs ber ekki að telja afhendingu á vöru í umræddum tilvikum til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda séu fyrir hendi fullnægjandi sannanir fyrir heimild afskriftar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

Friðgeir Sigurðsson.