Dagsetning Tilvísun
17. maí 1996 736/96
Virðisaukaskattur – álag
Vísað er til bréfs yðar dags. 19. mars 1996, þar sem sem lögð er fram spurning vegna álags.
Í bréfi yðar kemur fram að tollstjóri ákvarðaði álag á virðisaukaskatt vegna þess að þér greidduð virðisaukaskatt einum degi of seint. Þér vilduð ekki una þeim úrskurði og kærðuð hann því til ríkisskattstjóra, sem felldi álagið niður. Í framhaldi af því er bréfið skrifað og þar farið þér fram á að ríkisskattstjóri svari því skriflega hvað gerist ef sömu aðstæður koma upp aftur.
Í 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, segir að það teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef:
- Greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga.
- Greitt er hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Innheimtumenn virðis-aukaskatts eru tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur.
- Póstlögð greiðsla hefur borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga.
Skil eru ekki fullnægjandi nema allar tilskildar upplýsingar komi fram á skýrslu og hún sé undirrituð af skattaðila eða ábyrgum starfsmanni hans.
Sé virðisaukaskattur eigi greiddur á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu. Álagið er 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10% sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Í yðar tilviki greidduð þér eigi á gjalddaga því var álag lagt á yður. Ríkisskattstjóri mat síðan aðstæður þannig eftir að kæra barst frá yður að álag var fellt niður þar sem “um hafi verið að ræða atvik er gjaldandi gat ekki séð fyrir eða fengið nokkuð að gert” svo vitnað sé í úrskurð ríkisskattstjóra til yðar tilvísun 1996-00531.1.
Ef sömu aðstæður koma upp aftur og þér hafið ekki í höndum áritað eyðublað skal yður bent á að greiða skuld yðar hjá innheimtumanni ríkissjóðs sem er tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur svo komist verði hjá frekari óþægindum. Ljóst er að ef slíkar aðstæður koma upp aftur þá verður álag lagt á en jafnframt verður það fellt niður ef sönnur verða færðar á rétt skil.
Ríkisskattstjóri bendir á að ef virðisaukaskattur er greiddur með gíróseðli frá banka á gjalddaga (sem einnig er eindagi) þá berst greiðslan ekki til innheimtumanns fyrr en daginn eftir því slíkar greiðslur eru póstlagðar frá bönkum. Þetta leiðir til þess að álag leggst á ef greitt er á síðasta degi og ekki er notast við áritaðan gíróseðil.
Um þá spurningu yðar, hvort núverandi skipulagi á innheimtu verði breytt, þá er ekki áætlað að slíkt verði, enda meginreglan sú að skila eigi skattinum til innheimtumanna ríkissjóðs.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir