Dagsetning                       Tilvísun
21.07.2004                              12/04

 

Virðisaukaskattur – áskriftargjald – skattverð – skatthlutfall.

Með tölvupósti þann 7. júlí s.l. barst ríkisskattstjóra fyrirspurn frá Íslandsmiðli ehf. varðandi virðisaukaskatt af áskriftargjaldi og stofngjaldi að sjónvarpsútsendingu félagsins. Frá því er greint að félagið sé að hefja læsta útsendingu til áskrifenda um þráðlaust dreifikerfi á gagnvirku stafrænu sjónvarpi, undir vörumerkinu VAL+. Til að geta tekið á móti útsendingu þurfi áskrifendur sérstakan búnað, lítinn loftnetsdisk og myndlykil. Loftnetsdiskurinn sé sérhæfður til að taka á móti útsendingu VAL+. Hann sé sérinnfluttur og ekki seldur í verslunum sem almennur búnaður. Myndlykillinn breyti stafrænu merki í hliðrænt til birtingar myndar á sjónvarpsviðtæki. Myndlykillinn sé sérstaklega framleiddur með afruglunarkerfi sérhæfðu fyrir útsendingarkerfi og þjónustu VAL+ . Búnaðurinn sé nauðsynlegur til að geta tekið á móti þjónustu félagsins og sé innfalinn í áskrift. Stofngjald áskriftar sé kr. 30.000 og mánaðarlegt áskriftargjald kr. 1.590. Félagið spyr í erindi sínu hvort innheimta beri 14% virðisaukaskatt af áskriftargjaldi og stofngjaldi áskriftar og hvort félagið þurfi að uppfylla einhverjar kvaðir eða skilyrði til að svo sé. Jafnframt er spurt hvort 14% skatthlutfallið eigi við um sölu „umboðssöluaðila“ Íslandsmiðils ehf. á umræddri áskrift og innheimtu þeirra á stofngjaldi áskriftar.

Til svars við fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Samkvæmt skilgreiningunni er skattskyldusviðið mjög víðtækt. Tekur það til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Upptalningin í 3. mgr. á undanþeginni þjónustu er tæmandi. Hvers konar þjónusta sem ekki er þar beinlínis tiltekin undanþegin telst virðisaukaskattsskyld. Sú þjónusta sem felst í sjónvarpsútsendingum fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, enda ekki tiltekin undanþegin í 3. mgr. 2. gr. vsk-laga.

Þrátt fyrir að almennt skatthlutfall virðisaukaskatts sé 24,5%, þá skal virðisaukaskattur af afnotagjaldi útvarpsstöðva vera 14%, skv. 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. vsk-laga. Í 15. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 eru tiltekin sem tekjustofnar útvarpsstöðva annars vegar afnotagjöld og hins vegar áskriftargjöld. Ekki er í þeim lögum að finna beina skilgreiningu þeirra hugtaka, en í h-lið 1. gr. þeirra er læst útsending skilgreind svo: „Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).“ Má af því ráða að áskriftargjald í skilningi útvarpslaga merki greiðslur áskrifenda fyrir hina aðgangsstýrðu útsendingu. Ætla má þá að afnotagjald í skilningi útvarpslaga merki greiðslur notenda fyrir útsendingar sem ekki eru aðgangsstýrðar með framangreindum hætti, sbr. notkun hugtaksins afnotagjald í lögum um ríkisútvarp nr. 122/2000. Þrátt fyrir umrædda aðgreiningu áskriftargjalda og afnotagjalda í útvarpslögum, hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að afnotagjald útvarpsstöðva í skilningi 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. vsk-laga taki jafnt til áskriftargjalda sem afnotagjalda í framangreindri merkingu, þ.e. að með afnotagjaldi útvarpsstöðva sé almennt átt við endurgjald fyrir útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst, sbr. skilgreiningu útvarps í a-lið 1. gr. útvarpslaga. Skatthlutfallið ræðst af eðli þjónustunnar óháð kvöðum eða skyldum sem á seljanda hennar kunna að hvíla. Þannig ber afnotagjald útvarps, í framangreindri merkingu, 14% virðisaukaskatt jafnvel þótt sá er gjaldsins krefst hafi ekki leyfi útvarpsréttarnefndar til útvarps, eins og ráða má af úrskurði yfirskattanefndar nr. 352/2003.

Samkvæmt 7. gr. vsk-laga nefnist skattverð það verð sem virðisaukaskattur skal reiknaður af við sölu. Skal skattverðið miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda. Til skattverðs teljast m.a. tengingar- og stofngjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi krefur kaupanda um sem skilyrði fyrir afhendingu hins selda. Gjald af umræddum toga sem útvarpsstöð krefur notanda um sem skilyrði fyrir aðgangi að útsendingu sinni telst þannig til skattverðs, þ.e. til þess verðs sem reiknaður skal 14% virðisaukaskattur af. Öðru máli gegnir um gjald fyrir vörur sem útvarpsstöð kann að afhenda notanda til eignar eða selja honum á leigu, hvort heldur er sérstaklega eða samhliða gerð samnings um aðgang að útsendingu. Við slíka vörusölu eða lausafjárleigu ber að innheimta 24,5% virðisaukaskatt. Af fyrirspurnarbréfi má ráða að Íslandsmiðill ehf. hyggist afhenda áskrifendum nauðsynlegan búnað til móttöku útsendingar sinnar. Má af lýsingu ráða að notagildi búnaðarins takmarkist við móttöku á útsendingu Íslandsmiðils ehf. og sé aðeins afhentur áskrifendum til þeirra takmörkuðu afnota, en hvorki til annarra afnota né til eignar. Ríkisskattstjóri lítur svo á að slík afhending búnaðar feli hvorki í sér vörusölu né lausafjárleigu er bera skuli 24,5% virðisaukaskatt.

Eins og að framan greinir ber afnotagjald útvarpstöðva 14% virðisaukaskatt. Á það jafnt við þótt umboðsmaður hafi milligöngu um að koma á áskriftarsamningi milli útvarpsstöðvar og notanda. Þóknun umboðsmannsins fyrir hans þjónustu við milligönguna ber hins vegar 24,5% virðisaukaskatt. Af lýsingu í fyrirspurn á hlutverki „umboðssöluaðila“ í áskriftarsöfnun verður ráðið að þeir muni koma fram í nafni Íslandsmiðils ehf. og á ábyrgð þess félags gagnvart viðsemjendum, þ.e. væntanlegum áskrifendum. Verður því ekki litið svo á að „umboðssöluaðili“ sé kaupandi og endurseljandi þeirrar þjónustu sem um er samið. Eins og að framan getur lítur ríkisskattstjóri svo á að stofngjald af umræddum toga teljist til skattverðs þeirra þjónustu sem í útsendingu felst, þ.e. hluti afnotagjalds útvarpsstöðvar. Stofngjaldið, eins og afnotagjaldið að öðru leyti, telst til tekna útvarpsstöðvarinnar og virðisaukaskattsskyldrar veltu hennar, sem útvarpsstöðinni ber að reikningsfæra sem slíkt. Fyrir stofngjaldinu ber útvarpsstöðinni að gera sölureikning á hendur áskrifanda, en ekki á hendur milligöngumanninum („umboðssöluaðilanum“). Á það eins við þótt útvarpsstöðin kunni að kaupa af milligöngumanninum þjónustu við innheimtu gjaldsins.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Guðlaug M. Valdemarsdóttir

Sigurjón Högnason