Dagsetning                       Tilvísun
11. okt. 1990                             147/90

 

Virðisaukaskattur – auglýsingar á húsveggjum.

Með bréfi yðar, dags. 21. mars sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattsskylt sé ef eigendur fjölbýlishúss selja rétt til að birta auglýsingar með ljóstækni á útveggjum hússins. Jafnframt er spurt hvort greiðsla eigi að teljast til tekna hjá hverjum íbúðareiganda fyrir sig þannig að hver og einn greiði skatt af sínum hluta.

Að áliti ríkisskattstjóra er hér um að ræða sölu á aðstöðu fyrir auglýsingabirtingar. Ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt þykir eiga við um starfsemi af þessu tagi og er hún að áliti ríkisskattstjóra skattskyld samkvæmt almennum ákvæðum laganna, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra. Orkusala í þessu sambandi er einnig skattskyld. Seljandi skattskyldrar þjónustu er þó undanþeginn skattskyldu ef samtals skattskyld sala hans er undir 155.800 kr. á 12 mánaða tímabili.

Rétt er að líta á viðkomandi húsfélag sem hinn skattskylda aðila – þann sem innheimta skal og skila virðisaukaskatti – ekki hvern íbúðareiganda fyrir sig.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.