Dagsetning                       Tilvísun
25. maí 1993                           476/93

 

Virðisaukaskattur – auglýsingar vegna hjálparstarfs.

Vísað er til bréfs yðar dags, 26. janúar 1993, þar sem leitað er leiðbeininga vegna framlags stuðningsaðila til hjálparstarfs.

  1. Spurt er hvort ríkisskattstjóri sjái nokkuð því til fyrirstöðu að fyrirtæki sem styrkja starfið geti gjaldfært það sem auglýsingakostnað. Fyrirtækin fá fyrir fjárframlag stóra korktöflu en á henni mun standa “ við styrkjum A .

       Svar: Þegar um auglýsingakostnað fyrirtækja er að ræða þá er heimilt samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 31. gr. l. 75/1981 að draga þann kostnað frá tekjum manna í atvinnustarfsemi eða sjálfstæðri starfsemi. Ríkisskattstjóri telur að þau fyrirtæki er styrkja fyrrgreinda hjálparstarfsemi geti gjaldfært auglýsingarnar sem auglýsingakostnað.

  1. Spurt er hvort slík auglýsingasala sé virðisaukaskattskyld.

   Svar:  Slík auglýsingasala sem lýst er í bréfinu er virðisaukaskattskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. l. 50/1988 um virðisaukaskatt en þar er kveðið á um að skattskylda nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist. Ekki er hægt að fella slíka auglýsingasölu undir undanþágureglur 3. mgr. 2.gr. l. 50/1988 um virðisaukaskatt. Slík sala er aðeins skattskyld ef virðisaukaskattskyld sala fer yfir kr. 185.200 á ári ( miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993 ).

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson