Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 141/90
Virðisaukaskattur – Bifreiðaskoðun Íslands hf.
Með bréfi yðar, dags. 16. júlí 1990, eru gerðar athugasemdir við það álit ríkisskattstjóra, sem fram kom í bréfi embættisins, dags. 6. júlí sl., að innheimta beri virðisaukaskatt af öllum þjónustugjöldum Bifreiðaskoðunar Íslands hf. Í bréfi yðar segir m.a.:
„Ef mið er tekið af eðli þeirrar starfsemi sem Bifreiðaskoðun Íslands h.f. hefur á hendi, sem er opinbert eftirlit með ástandi og búnaði ökutækja. Enn fremur að fyrirtækið er stofnað á grundvelli samnings. við dómsmálaráðherra um yfirtöku á skoðun ökutækja fyrir hönd hins opinbera á tímabilinu 1989 – 2000, virðist eðlilegra að starfsemi félagsins falli undir 4. tl. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. – Það er með öðrum orðum álit okkar að við túlkun laganna um virðisaukaskatt virðist eðlilegra að miða við eðli þeirrar starfsemi sem félagið hefur með höndum, heldur en rekstrarform. Þar fyrir utan má benda á að Ríkissjóður Íslands er eigandi að helmingi hlutafjár í Bifreiðaskoðun Íslands h.f. og því spurning hvort ekki er um að ræða ríkisfyrirtæki. – Niðurstaðan er því sú að samkvæmt eðli starfsemi Bifreiðaskoðunar Íslands h. f. og eignaraðildar þykir okkur rökréttara að flokka félagið undir 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 heldur en l. tl. sömu greinar.“
Ríkisskattstjóri vill af þessu tilefni taka fram að samkvæmt stofnsamningi fyrir Bifreiðaskoðun Íslands hf. eru stofnendur félagsins auk ríkissjóðs 57 talsins; atvinnufyrirtæki og félagsamtök í bílgreininni, tryggingafélög o.fl. Fram kemur í stofnsamningi og samþykktum félagsins að engar hömlur eru lagðar á sölu hlutabréfa. Í samningi félagsins og dómsmálráðherra, sem getið er um í bréfi yðar, kemur fram að við ákvörðun gjaldskrár fyrir þjónustu félagsins skuli við það miðað að rekstrartekjur fyrirtækisins nægi fyrir eðlilegum rekstrarútgjöldum og að hluthöfum skuli árlega greiddur eigi lægri en 10% arður af hlutafjáreign sinni að teknu tilliti til heimilaðar útgáfu jöfnunarhlutabréfa.
Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt eru allir þeir skattskyldir sem selja eða afhenda vörur eða verðmæti eða inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi. Kemur þessi meginregla fram í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þess er getið í athugasemdum með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt að við mat þess hvort aðili hafi með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.e. hvort um er að ræða skattskyldu skv. 1. tölul., fari eftir svipuðum sjónarmiðum og gilda um þessi atriði í tekjuskattslögum. Er vafalaust að Bifreiðaskoðun Íslands hf. telst hafa með höndum atvinnustarfsemi í skilningi tekjuskattslaga.
Í síðari töluliðum l. mgr. 3. gr. er kveðið á um skattskyldu ýmissa aðila sem gætu talist falla utan skilgreiningar l. tölul. Að áliti ríkisskattstjóra taka 3. og 4. tölul. aðeins til þeirra stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga sem undanþegin eru skattskyldu samkvæmt tekjuskattslögum, sbr. 2. og 3. tölul. 4. gr. þeirra. Er hér um að ræða stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga sem þessir aðilar reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á.
Með vísan til framanritaðs ítrekar ríkisskattstjóri það álit og túlkun sem fram kemur í bréfi embættisins, dags. 6. júlí 1990, til Bifreiðaskoðunar Íslands hf.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.