Dagsetning Tilvísun
07.01.2005 01/05
Virðisaukaskattur – bílaleiga – sala á kaskótryggingum
Ríkisskattstjóra barst þann 26. nóvember s.l. eftirfarandi fyrirspurn á tölvupósti frá félaginu:
„Góðan daginn,
Ég hef hug á að stofna fyrirtæki sem hefur með höndum útleigu sendiferðabifreiða án bílstjóra. Leigu á sendibifreiðum til skamms tíma til einstaklinga og fyrirtækja. Leiga bifreiðanna og annar tengdur kostnaður, s.s. eldsneyti telst til Virðisaukaskattskyldrar starfsemi. Innifalið í leiguverði verður afnot af bifreiðinni og öðru sem henni fylgir og fyljga ber, þmt. lögbundnar ábyrðgartryggingar.
Bifreiðanar verða ekki í kaskó, en leigutaki ber fulla ábyrgð á bifreiðinni á meðan hún er í hans umsjón. Ef tjón eða aðrar óeðlilegar skemmdir eða slit verða á henni ber honum að bæta það tjón. Fyrirtækið hefur í hyggju að bjóða viðskiptamönnum upp á tryggingu svokallað kaskótrygginu, þannig að ef bifreiðin verður fyrir tjóni á leigutímanum þá fellur það tjón á fyrirtækið en ekki leigutakan. Leigutaka er einnig í sjálfsvald sett að tryggja bifreiðina hjá „sínu“ tryggingarfélagið telji hann sig fá betri kjör þar.
Sú trygging sem fyrirtækið ætlar að bjóða er undanþegin virðisaukaskatti, þar sem sala trygginga telst vera undanþegin skv. virðisaukaskattslögum.
Vinsamlegast staðfesta að um sé að ræða rétta túlkun virðisaukaskattslaga.“
Til að afla frekari upplýsinga áður en erindinu var svarað sendi ríkisskattstjóri félaginu fyrirspurn á tölvupósti, þann 10. desember 2004, þar sem spurt var hvort ætlunin væri að selja umræddar kaskótryggingar í umboðssölu fyrir vátryggingarfélag. Svar barst frá félaginu með tölvupósti þann 12. desember 2004 og fer það hér á eftir:
„Það er ekki ætlunin að vera með þetta í umboðssölu fyrir tryggingafélag, enda ætti það ekki að breyta neinu hvort félagið selji þetta í nafni tryggingafélags eða selji sjálft. Í skilningi VSK langa er sala trygginga er skv. lögum um virðisaukaskatt undanþegin VSK, ekki er þar gerð krafa um að tryggingar séu seldar í umboðssölu eða ekki.“
Til svars við erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Leiga á lausafjármunum, þ.m.t. sendiferðabílum, er virðisaukaskattsskyld starfsemi og ber félaginu því að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem það krefst fyrir leiguna. Virðisaukaskatturinn skal reiknast af heildarendurgjaldi fyrir hina seldu þjónustu, skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Til skattverðsins (heildarendurgjaldsins) teljast meðal annars vátryggingar sem innifaldar eru í verði eða seljandi krefur kaupanda sérstaklega um sbr. 2. tölul. 2. mgr. nefndrar 7. gr.
Vátryggingarstarfsemi er hins vegar undanþegin virðisaukaskatti sbr. 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga. Í skattframkvæmd hefur undanþágan verið túlkuð þannig að hún taki til vátryggingarstarfsemi þeirra sem leyfi hafa til að stunda vátryggingarstarfsemi sbr. 2. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingarstarfsemi. Jafnframt hefur undanþágan verið talin taka til þeirra sem selja tryggingar í umboðssölu fyrir þau félög sem leyfi hafa til að stunda vátryggingarstarfsemi. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 60/1994 mega einungis eftirtaldir aðilar reka vátryggingarstarfsemi hér á landi:
1. Hlutafélög og gagnkvæm félög sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skv. 26. gr.
2. Erlend vátryggingafélög með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði sem hafa fengið starfsleyfi í heimaríki, sbr. 64. og 65. gr.
3. Erlend vátryggingafélög með aðalstöðvar í Sviss sem hafa fengið starfsleyfi þar, sbr. 64. og 65. gr.
4. Erlend vátryggingafélög með aðalstöðvar utan hins Evrópska efnahagssvæðis sem fá leyfi til að reka útibú hér á landi, sbr. 71. gr.
Sala annarra en ofangreindra félaga, og þeirra umboðsmanna, á vátryggingum verður ekki felld undir undanþáguákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga.
Með hliðsjón af framangreindu getur ríkisskattstjóri ekki staðfest þá túlkun fyrirspyrjanda, á lögum um virðisaukaskatt, að sala hans á því sem hann nefnir kaskótryggingar sé undanþegin virðisaukaskatti.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Sigurjón Högnason
Guðrún Þorleifsdóttir