Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                              331/91

 

Virðisaukaskattur – björgunarþjónusta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. mars 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort starfserni B, þ.e. björgunarþjónusta við skip, sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Fram kemur í erindinu að hlutafé félagsins er að langmestu leyti (99,5%) í eigu vátryggingarfélaga. A.m.k. sum rekstrarár hafa rekstrartekjur verið lægri en gjöld og hafa eigendur þá lagt félaginu til óafturkræf rekstrarframlög.

Skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema starfsemin sé sérstaklega undanþegin. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna til björgunarþjónustu við skip. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber bjargendum skipa, sem taka þóknun fyrir þjónustu sína, að innheimta og skila virðisaukaskatti af endurgjaldinu.

Björgunarþjónusta sem veitt er millilandaförum (farskipum) er undanþegin skattskyldri veltu (ber „núllskatt“), sbr. 5. tölul. l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna til björgunarþjónustu eða björgunarvinnu við skip almennt.

Skattskylda tekur til allra sem inna björgunarþjónustu af hendi i atvinnuskyni, þ.e. gegn endurgjaldi (björgunarlaunum). Ríkisskattstjóri getur ekki litið svo á að björgunarstörf Landhelgisgæslu Íslands séu unnin í „samkeppni við atvinnufyrirtæki“ eins og skilyrði er skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna til að sú stofnun teljist skattskyld vegna þeirra.

Ríkisskattstjóri túlkar ákvæði virðisaukaskattslaga um skattverð þannig að skráð fyrirtæki skuli greiða virðisaukaskatt af framlögum frá eigendum eða öðrum aðilum sem talist geta bein eða óbein greiðsla fyrir vörur eða skattskylda þjónustu sem fyrirtækið selur. Rekstrarframlög eigenda B. virðast falla hér undir. Samkvæmt þeirri niðurstöðu skal félagið telja þessi framlög til skattskyldrar veltu sinnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.