Dagsetning Tilvísun
19. desember 1991 371/91
Virðisaukaskattur – borun eftir heitu vatni.
Skattstofa Reykjavíkur hefur sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dags. 19. júní 1991, um virðisaukaskatt af nýtingu á heitu vatni í landareign yðar.
Í bréfinu kemur fram að félagið hyggst láta bora eftir heitu vatni á jörðinni og nota vatnið til ýmissa þarfa, m.a. hitunar eigin húsa, fiskeldis í tjörnum, sundlaugar, svo og til sölu til sumarbústaða og sveitarfélagsins í skóla og samkomuhús sveitarinnar.
Til svars erindinu skal tekið fram að sala á heitu vatni í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Ef félagið selur heitt vatn í atvinnuskyni ber því að láta skrá starfsemi sína hjá skattstjóra og innheimta og skila virðisaukaskatti af skattskyldri veltu. Sala á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns er undanþegin skattskyldri veltu skráðs seljanda, þ.e. ber „núllskatt“, sbr. 11. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Önnur vatnssala en til þeirrar notkunar ber 24,5% virðisaukaskatt. Sala á heitu vatni til endursölu fellur að áliti ríkisskattstjóra ekki undir 11. tölul. l. mgr. 12. gr. laganna, heldur ber slík sala 24,5% virðisaukaskatt.
Eigin úttekt eiganda skráðs fyrirtækis á vöru sem það framleiðir eða selur er skattskyld skv. 1. mgr. 11. gr., sbr. 8. gr. laga um virðisaukaskatt. Sama gildir um úttekt til nota í öðrum tilgangi en varðar sölu fyrirtækis á skattskyldum vörum og þjónustu. Þannig ber skráðum aðila að reikna og skila virðisaukaskatti af heitu vatni sem hann notar til ræktunar fisks í eigin veiðivatni, en ekki af vatni sem hann notar vegna ræktunar fisks til sölu í atvinnuskyni, svo dæmi séu tekin.
Skráður aðili, sem selur heitt vatn eða aðra orku í atvinnuskyni, getur talið virðisaukaskatt, sem til fellur eftir skráninguna, vegna kaupa á rekstrarfjármunum og öðrum aðföngum til innskatts eftir almennum reglum laga um virðisaukaskatt. Gildir þetta bæði vegna sölu á vatni til hitunar húsa og laugarvatns og annarrar vatnssölu. Tekið skal fram að ekki er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af borunum eftir heitu vatni ef þessar framkvæmdir leiða ekki til skattskyldrar sölu.
Um nánari leiðbeiningar vísast til meðfylgjandi bréfs ríkisskattstjóra, dags. 21. mars 1991, um virðisaukaskatt af hitaveituframkvæmdum í sveitum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.