Dagsetning                       Tilvísun
20. des. 1990                             191/90

 

Virðisaukaskattur – bráðabirgðaskil fiskvinnslu.

Með bréfi yðar, dags. 28. mars 1990, er þess óskað „að félagið fái heimild til þess að skila bráðabirgðaskýrslu varðandi innskatt af hráefni [til fiskvinnslu] á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri en öll önnur skil fyrir félagið á öðru virðisaukaskattsnúmeri“.

Af þessu tilefni sendist yður hér með ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 30. janúar 1990, til allra skattstjóra, þar sem fram kemur túlkun ríkisskattstjóra á reglugerð nr. 563/1989, um uppgjör, uppgjörstímabil og skil fiskvinnslufyrirtækja.

Athygli skal vakin á eftirfarandi atriðum:

  1. Samkvæmt reglugerð þessari getur fyrirtæki, sem bæði hefur með höndum útgerð og fiskvinnslu og uppfyllir skilyrði um aðgreiningu í bókhaldi, fengið tvö skráningarnúmer (vsk-númer) og skilað sérstakri virðisaukaskattsskýrslu vegna hvors þáttar starfseminnar.

    Með aðgreiningu í bókhaldi er átt við að rekstrartekjur og rekstrargjöld vegna hvors þáttar starfseminnar færist á aðskilda bókhaldsreikninga og bókhaldið sé að öðru leyti þannig úr garði gert að hægt sé að byggja aðskilin uppgjör á því.
  1. Fiskvinnslufyrirtæki getur fengið heimild skattstjóra til að skila sérstakri bráðabirgðaskýrslu sem tekur til innskatts af hráefni til fiskvinnslu.
  1. Til þess að fiskvinnslufyrirtæki með bráðabirgðaskil, sem jafnframt hefur eigin útgerð með höndum, geti fært reiknaðan innskatt af eigin afla á bráðabirgðaskýrslu þarf það að áliti ríkisskattstjóra að ha£a sitt hvort skráningarnúmerið vegna útgerðar og vinnslu. Ber þá jafnframt að tilgreina reiknaðan útskatt á skýrslu vegna útgerðarþáttarins. Fiskvinnslufyrirtæki, sem jafnframt stundar útgerð, getur hins vegar fengið bráðabirgðauppgjör vegna aflakaupa af þriðja aðila óháð því hvort það hefur aðgreind uppgjör virðisaukaskatts vegna hvors þáttar rekstrarins.

Samkvæmt framansögðu er skattstjóra ekki fært að verða að öllu leyti að ósk félagsins. Ekki er unnt að skila bráðabirgðaskýrslu vegna innskatts af hráefni til fiskvinnslu á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri en öllum öðrum skilum á öðru virðisaukaskattsnúmeri. Félagið virðist hins vegar geta valið á milli eftirfarandi kosta:

A. Fengið skemmra uppgjörstímabil (félagið mun nú hafa eins mánaðar uppgjörstímabil).

B. Aðgreint rekstur í bókhaldi í annars vegar útgerð og hins vegar fiskvinnslu, skilað sitt hvoru uppgjörinu vegna þessara þátta og jafnframt fengið bráðabirgðaskil vegna keypts hráefnis sem þá tæki bæði til eigin afla og afla sem keyptur er af þriðja aðila.

C. Skilað einni virðisaukaskattsskýrslu vegna alls fyrirtækisins en fengið jafnframt bráðabirgðaskil sem í þessu tilviki tæki aðeins til afla sem keyptur er af þriðja aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.