Dagsetning Tilvísun
16. september 1993 535/93
Virðisaukaskattur – bráðabirgðaskil fiskvinnslufyrirtækis
Vísað er til bréfs yðar frá 22. júlí 1993, þar sem þess er óskað að staðgengli skattstjóra Vesturlandsumdæmis í Ólafsvík verði heimilað að fara yfir bráðabirgðaskýrslu fiskvinnslufyrirtækis og veita umboð til að taka við endurgreiðslu. Bent er á í bréfi yðar að allt að tvær vikur geti liðið frá því að bráðabirgðaskýrsla fiskvinnslufyrirtækis er send til skattstjóra þar til greiðsla berst í banka.
Nánar segir í bréfi yðar:
„Miðað við það fyrirkomulag sem Reykvísk Fiskvinnslufyrirtæki starfa við þá tekur það þau einungis þann tíma sem stimplun hjá Skattstjóra tekur og ferð í banka til að fá endurgreiðsluna. Til að jafna út þennan mun förum við fram á það að staðgengill skattstjóra hér í Ólafsvík (Bæjarstjóri Ólafsvíkur) verði heimilað að fara yfir þessa skýrslu og veita umboð til að fá þessa upphæð endurgreidda.“
Með vísan til fyrirspurnar yðar vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi varðandi afgreiðslu á bráðabirgðaskýrslu: Til þess að unnt sé að endurgreiða innskatt samkvæmt bráðabirgðaskýrslu þarf undirritað frumrit skýrslunnar að hafa borist skattstjóra og ber honum þá að afgreiða bráðabirgðaskýrsluna án ástæðulauss dráttar, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 563/1989, um uppgjör, uppgjörstímabil og skil fiskvinnslufyrirtækja, sbr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og sbr. ákvæði reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með síðari breytingum. Afrit bráðabirgðaskýrslu (s.s. ljósrit eða fax) verður ekki talið fullnægjandi gagn varðandi skráningu og afgreiðslu bráðabirgðaskýrslu og því ber skattstjóra eigi að afgreiða skýrsluna fyrr en frumrit skýrslunnar hefur borist honum. Beiðni yðar um að staðgengli skattstjóra verði heimilað að fara yfir bráðabirgðaskýrslu og afgreiða endurgreiðslu er því hafnað.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Bjarnfreður Ólafsson.