Dagsetning Tilvísun
11. júní 1997 801/97
Virðisaukaskattur – breyting á lögum (nr. 55/1997)
Hér með sendist yður hr. skattstjóri ljósrit af lögum nr. 55/1997, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
I
Meginbreytingar á virðisaukaskattslögum með lögum nr. 55/1997 miða að því að kveða með skýrari hætti en nú er á um afmörkun skattskyldu í einstökum tilvikum. Skattskylda er því afmörkuð skýrar en áður og er það fyrst og fremst tilkomið vegna ákvæða 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki mega fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í ýmsum ákvæðum virðisaukaskattslaga er skattskylda ekki afmörkuð með skýrum hætti, þ.e. þar hafa stjórnvöld haft heimild til að afmarka skattskylduna nánar með reglugerðum. Þessi heimildarákvæði eru nú afnumin með þeim hætti að skýrt er kveðið á um hver skattskyldan sé í einstökum tilvikum en fjármálaráðherra eftir sem áður heimilt að setja framkvæmdarreglur. Þeim ákvæðum sem breytt var á grundvelli framanritaðs eru eftirfarandi:
- mgr. 2. gr. um góðgerðarstarfsemi. Engin efnisleg breyting frá framkvæmd samkvæmt reglugerð nr. 564/1989, um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi.
- 3. gr. um skattskyldu eigin starfsemi í samkeppni við skattskylda aðila. Engin efnisleg breyting verður á framkvæmd frá ákvæðum reglugerða nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi og nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
- og 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. um sölu á þjónustu til erlendra aðila sem er að öllu leyti nýtt erlendis og þjónustu sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar afla hér á landi. Töluliðirnir koma í stað 2. málsliðar 2. mgr. sem er heimildarákvæði. Hér verður um að ræða töluverða breytingu á framkvæmd þar sem þjónusta seld erlendum aðilum verður einungis undanþegin skattskyldri veltu ef hún er nýtt að öllu leyti erlendis. Ákvæði b. liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, fellur úr gildi og verða því þeir erlendu aðilar sem kaupa og nýta þjónustu hér á landi að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af henni samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.
- gr. um kaup á þjónustu erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi. Engin efnisleg breyting verður á framkvæmd frá ákvæðum II. kafla reglugerðar nr. 194/1990 sem fjallar um kaup á þjónustu erlendis frá.
- mgr. 36. gr. um virðisaukaskattsfrjálsan innflutning á rituðu máli, sem sent er til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana án endurgjalds. Engin efnisleg breyting verður á framkvæmd frá ákvæðum reglugerðar nr. 71/1993, um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna innflutnings á prentuðu máli.
- mgr. 42. gr. um endurgreiðslu virðisaukaskatts til ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra. Engin efnisleg breyting verður á framkvæmd frá ákvæðum 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
II
Í öðru lagi er felld niður vísitölubinding fjárhæða í lögunum (45. gr. laga nr. 50/1988 er felld niður). Í þeim ákvæðum núgildandi laga sem þetta á við hafa fjárhæðir því verið ákveðnar að nýju án vísitölubindingar. Um er að ræða eftirfarandi ákvæði: 1) Veltumark í 3. tölul. 4. gr. verður 220.000 kr. 2) Fjárhæð reiknings frá smásöluaðila án tilgreiningar kaupanda skv. 7. mgr. 20. gr. verður 6000 kr. og 3) Heimild ráðherra skv. 1. mgr. 24. gr til að kveða á um lengri uppgjörstímabil smárra aðila nær til veltu undir 1.400.000 kr.
III
Í þriðja lagi er ákvæði 5. mgr. 5. gr. laganna breytt til samræmis við framkvæmd en eins og ákvæði þetta var orðað í lögum nr. 40/1995 þá láðist að gera ráð fyrir því að aðilar ættu þess kost að fá fyrirfram skráningu vegna þjónustustarfsemi því ákvæðið átti aðeins við um framleiðslu á vöru til sölu á síðari rekstrarárum. Með breytingunni er bætt úr þessu.
IV
Í fjórða lagi er ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. breytt á þann veg að fjarskiptaþjónusta teljist ekki vera veitt erlendis ef kaupandi hefur annaðhvort búsetu eða starfsstöð hér á landi. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. um þetta ákvæði:” Þykir óeðlilegt að innlendir aðilar sem kaupa þessa þjónustu af íslensku fyrirtæki greiði ekki virðisaukaskatt af henni einungis vegna þess að þeir eru staddir í öðru landi þegar þeir móttaka þjónustuna. Sér í lagi er litið til þess að íslenska fyrirtækið sem kaupir fjarskiptaþjónustu erlendis til endursölu gagnvart innlendum aðilum getur í flestum tilvikum fengið erlendan virðisaukaskatt endurgreiddan þannig að enginn virðisaukaskattur hvílir á þessari þjónustu sem íslenskir neytendur kaupa af innlenda fyrirtækinu.”
V
Í fimmta lagi er í ákvæði 4. málsl. 4. mgr. 25. gr. lögfest heimild skattstjóra til að fresta endurgreiðslu virðisaukaskatts í þeim tilvikum sem skattstjóri telur að um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga sé að ræða. Heimildin er bundin því skilyrði að skattstjóri hafi tilkynnt skattrannsóknarstjóra ríkisins um að hann telji að aðili hafi brotið af sér. Hér er því tryggt að skattstjóri stöðvi útgreiðslur úr ríkissjóði á meðan mál eru í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
VI
Í sjötta lagi er lögfest álagsbeiting þegar skattskyldir aðilar fá of háa endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerða nr. 554/1993, um virðisaukaskattskylda sölu á vörum til manneldis o.fl., nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila og nr. 484/1992, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns.
VII
Í sjöunda og síðasta lagi er sá frestur styttur sem skattskyldur aðili fær til að ráða bót á tekjuskráningarkerfi sínu og bókhaldi þegar skattrannsóknarstjóri beinir fyrirmælum til hans um úrbætur. Fresturinn er styttur úr 45 dögum í 15 daga.
Gildistaka laganna er 1. júlí 1997.
Að öðru leyti en að framan greinir þykja ákvæði laganna skýra sig sjálf. Ljóst er að á næstunni mun fara fram gagnger endurskoðun á þeim ákvæðum reglugerða er fjalla um framkvæmd þeirra ákvæða er þessi lög hafa breytt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir