Dagsetning                       Tilvísun
7. janúar 1997                            780/97

 

Virðisaukaskattur – breytingar á lögum og reglugerðum

Hér með sendist yður hr. skattstjóri ljósrit af lögum nr. 149/1996, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Jafnframt sendist yður ljósrit af reglugerð um breyting á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, með breytingum skv. reglugerðum nr. 548/1993, 146/1995 og 601/1995 og reglugerð um breyting á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

I

Meginbreytingar á virðisaukaskattslögum með lögum nr. 149/1996 varða réttarfar í skattamálum. Ákvæði 3.-8. gr. fjalla um málsmeðferð hjá skattyfirvöldum og fela í sér breytingar á ákvæðum 25., 26., 27., 28., 29. og 39. gr. laga nr. 50/1988. Eru þær breytingar í takt við breytingar sem gerðar voru á lögum 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hvað varðar kærur til skattstjóra. Þar er um að ræða styttingu málsmeðferðar um eitt kærustig við endurákvörðun og er breytingunni ætlað að miða að aukinni skilvirkni á skattstjórastigi án þess þó að skerða réttaröryggi skattaðila.

Jafnframt eru málsmeðferðarákvæði virðisaukaskattslaga fyllt og samræmd málsmeðferðar-ákvæðum laga nr. 75/1981 eftir því sem við á og felast ekki efnisbreytingar í þeirri samræmingu.

Stytting málsmeðferðar samkvæmt lögunum er á þann veg að endurákvörðun skattstjóra er ekki lengur kæranleg til skattstjóra heldur beint til yfirskattanefndar. Þrátt fyrir það er skattstjóra heimilt þegar virðisaukaskattur eldri tímabila er endurákvarðaður samhliða ákvörðun um skatt á viðkomandi uppgjörstímabili, skv. 25. gr., að taka slíkar ákvarðanir saman í eina sem er kæranleg til skattstjóra í heild sinni, enda liggi ekki fyrir álagning skv. 98. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. 29. gr. vskl. (sbr. 7. gr. laga nr. 149/1996). Ákvæðið er túlkað þannig að skattstjóra sé ekki skylt að fara þannig að en ákvörðun hans um nýtingu heimildarinnar verði að koma fram þegar hann tilkynnir um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 26. gr. vskl. Framangreind heimild er á skjön við styttingu málsmeðferðar en hagkvæmnisrök mæla með þessu fyrirkomulagi, enda þurfa skattstjórar þá ekki að reka tvö mál í slíkum tilvikum gegn einum og sama aðilanum vegna mismunandi málsmeðferðar, auk þess sem minni hætta er á að gjaldandi misskilji kærurétt sinn. Þá er ljóst að nýting skattstjóra á heimildinni er ívilnandi fyrir gjaldanda þar sem honum er veittur rýmri andmælaréttur en ella vegna eldri tímabila.

Fyrirhugun vegna endurákvörðunar bar ávallt að senda í ábyrgð, sbr. 10. mgr. 27. gr. eins og ákvæðið var fyrir breytingu en er nú fellt niður til samræmis við lög nr. 75/1981.

Með breytingu á ákvæði 29. gr. er kveðið skýrt á um frá hvaða tíma kærufrestur til skattstjóra reiknast þegar um ákvörðun er að ræða, þ.e. frá póstlagningu tilkynningar um skattákvörðun eða frá gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils sé ákvörðun ekki tilkynnt sérstaklega.

Aðrar breytingar vegna málsmeðferðar eru til samræmingar við lög nr. 75/1981, s.s. að lágmarksfrestur gjaldanda til andmæla vegna endurákvörðunar er 15 dagar og skattstjóri hefur tvo mánuði í stað eins áður til að kveða upp úrskurð talið frá lokum kæru- eða andmælafrests.

Tilvísun í vörugjaldslög í ákvæði 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna er felld brott en í stað þess er sett tilvísun í viðauka við lögin (10. gr.) sem er efnislega samhljóða gjaldflokki D í lögum nr. 97/1987 áður en þeim var breytt á síðasta vorþingi. Hér er því ekki um efnislega breytingu að ræða.

Við 7. mgr. 16. gr. laganna er bætt nýjum málslið sem fjallar um tilkynningu skattaðila til skattstjóra áður en virðisaukaskattsbifreið er tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila er heimill minni eða enginn frádráttur innskatts af öflun bifreiðar. Ef bifreið hefur verið auðkennd sérstaklega (rauðhvít númer) ber skattaðila að fjarlægja auðkenni í framhaldi af tilkynningu til skattstjóra.

Í 9. gr. eru síðan endurgreiðslur vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis lækkaðar í 60% til samræmis við endurgreiðslur vegna vinnu manna við nýbyggingar. Hvað varðar lagaskil ákvæðisins var sett ákvæði til bráðabirgða II sem tekur af öll tvímæli í þessu sambandi. Þar kemur fram að fari afhending fram fyrir 1. janúar 1997 sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af henni að fullu enda sé dagsetning sölureiknings fyrir þann tíma. Sama gildir um verksamninga þar sem afhending fer fram bæði fyrir og eftir áramót.

Lögin tóku gildi 1. janúar 1997. Þó ber þess að geta að í bráðabirgðaákvæði I með lögunum er tekið fram að hafi skattstjóri tilkynnt aðila um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti fyrir 1. janúar 1997 skal fara með málið eftir þeim ákvæðum sem í gildi voru fyrir þann tíma.

II

Breyting á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, varðar annars vegar endurgreiðslur og hins vegar form sölureikninga vegna endurgreiðslu.

Annars vegar er verið að rýmka endurgreiðsluákvæði 12. gr., þ.e. eftir breytingu er virðisaukaskattur vegna allrar sorphreinsunar hvort sem hún er reglubundin eða ekki endurgreiddur og jafnframt verður endurgreiddur virðisaukaskattur vegna snjó- og hálkueyðingar með salti eða sandi. Hins vegar er kveðið skýrt á um að endurgreiðslubeiðni skuli byggjast á fullnægjandi sölureikningum skv. reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, en yfirskattanefnd hafði úrskurðað á þann veg að sölureikningar þyrftu ekki að fullnægja þessum skilyrðum til að opinberir aðilar fengju virðisaukaskatt endurgreiddan.

Reglugerðin er sett 2. janúar 1997 og öðlast gildi 3. janúar sem er birtingardagur hennar.

III

Með reglugerð um breyting á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, er endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald lækkað í 60% til samræmis við framangreinda lagabreytingu, sbr. 9. gr. laga 149/1996.

Reglugerðin tók gildi 1. janúar 1997.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.