Dagsetning                       Tilvísun
12. janúar 1998                            834/98

 

Virðisaukaskattur – breytingar á lögum og reglugerðum

Hér með sendist yður hr. skattstjóri ljósrit af lögum nr. 115/1997, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Jafnframt sendist yður ljósrit af reglugerð nr. 689/1997 um breyting á reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna og reglugerð nr. 697/1997, um breyting á reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu, með síðari breytingu.

I

Breyting á lögum um virðisaukaskatt.

Með lögum nr. 115/1997 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Meðal helstu breytinga er eftirfarandi:

1. Þjónusta seld erlendum aðilum – reglur færðar til fyrra horfs

Með lögum nr. 55/1997 var gerð töluverð breyting á framkvæmd á sviði reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Nýja fyrirkomulagið, sem tók gildi 1. júlí 1997, krafðist meiri fyrirhafnar af hálfu erlendra aðila í þeim tilvikum sem þjónusta telst vera nýtt hér á landi. Samkvæmt lögunum þurftu þeir að greiða virðisaukaskatt af þjónustu sem nýtt var hér á landi og sækja síðan um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, í stað þess að fá hana afhenta án virðisaukaskatts.

Með lögum nr. 115/1997 var fyrirkomulag skattmeðferðar á þjónustu við erlenda aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi fært til fyrra horfs í meginatriðum. Bent skal á að upptalning þjónustu í lögunum er að öllu leyti sú sama og er í reglugerð nr. 194/1990 en auk þess er fjarskiptaþjónusta í upptalningunni. Þessi breyting er afturvirk og gildir frá 1. júlí 1997.

Nýjum tölulið, 11. tölulið 1. mgr. 12. gr., er bætt við og undanþiggur skattskyldri veltu þjónustu sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis. Efnislega hljóðaði töluliðurinn fyrir gildistöku laga nr. 111/1992 svo: Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns. Gildistaka er við birtingu, þ.e. 18. desember 1997.

Skattskyld þjónusta (35. gr. laganna) sem keypt er erlendis frá er síðan takmörkuð við 10. tölulið 1. mgr. 12. gr. laganna eða eins og reglugerð nr. 194/1990 gerir ráð fyrir. Jafnframt er bætt nýrri málsgrein við 35. gr. laganna sem fjallar um framkvæmd á greiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á þjónustu erlendis frá.

2. Endurgreiðslur til aðila búsettra erlendis, þ.m.t Íslendinga með heimilisfesti í öðru landi.

Með lögum nr. 155/1997 eru endurgreiðslureglur til erlendra ferðamanna rýmkaðar þannig að nú ná þær til allra aðila sem eru með fasta búsetu erlendis en ekki aðeins til ferðamanna með erlent ríkisfang og erlenda heimilisfesti. Breytingunni er ætlað að gera erlendis búsetta Íslendinga (heimilisfesti erlendis) jafnsetta öðrum ferðamönnum hér á landi hvað varðar endurgreiðslu virðisauka­skatts af varningi sem þeir kaupa hér á landi og hafa með sér af landi brott innan 30 daga frá því að kaupin gerðust. Þessi lagabreyting tók gildi 18. desember 1997. Með reglugerð nr. 689/1997 var reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna, breytt til samræmis við þetta og var heiti hennar breytt á þann veg að nú er reglugerðin um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

II

Breytingar á reglugerð um frjálsa og sérstaka skráningu

Með reglugerð nr. 697/1997 voru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Breytingunum, sem tóku gildi 1. janúar s.l., er ætlað að skýra og tryggja framkvæmd á sviði reglugerðar nr. 577/1989, m.a. með því að fylla sum ákvæði reglugerðarinnar en að öðru leyti að breyta ákvæðum og tryggja samræmda framkvæmd alls staðar á landinu. Meðal helstu nýmæla er eftirfarandi:

  • Nú skal þinglýsa yfirlýsingu kaupanda, um ætluð not hans af fasteign­ og skuldbindingu hans um yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts, á fasteign sem skráð hefur verið sérstakri skráningu. Byggingaraðili þarf því að leggja fram gögn um þinglýsingu yfirlýsingar og skuldbindingar þegar: 1) hann sækir um sérstaka skráningu vegna selds húsnæðis eða 2) aflétta á tryggingu við sölu sérstaklega skráðs húsnæðis.
  • Trygging vegna óselds húsnæðis, sem óskað er sérstakrar skráningar á, skal nú vera í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka.
  • Með umsókn um frjálsa skráningu vegna útleigu húsnæðis skal nú leggja fram vottorð um að leigusamningi hafi verið þinglýst.
  • Ef um nýbyggingu er að ræða eða verulegar endurbætur á eign áður en leigutaki tekur eign í notkun getur leigutaki sótt um sérstaka skráningu en ekki frjálsa skráningu.
  • Ef húsnæði sem skráð hefur verið frjálsri skráningu er ekki í notkun í sex mánuði eða lengur, t.d. vegna þess að leigusamningi hefur verið rift, telst sá tími ekki til leiðréttingartímabils samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.