Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              58/90

 

Virðisaukaskattur – diskótek.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. febrúar 1990, þar sem spurt er hvort starfsemi félagsins teljist virðisaukaskattsskyld. Segir að í starfseminni felist að flytja tónlist af plötum, diskum o.s.frv., einkum fyrir dansi. Jafnframt segir að félagið standi ekki sjálft fyrir samkomuhaldi, heldur vinni eingöngu fyrir aðra samkvæmt fyrirfram umsaminni þóknun.

Að mati ríkisskattstjóra fellur sú starfsemi, sem að ofan er lýst, undir undanþáguákvæði 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af því leiðir að fyrirtækið innheimtir ekki virðisaukaskatt af þóknun fyrir þjónustu sína, en jafnframt hefur undanþágan það í för með sér að fyrirtækið hefur engan frádrátt virðisaukaskatts (innskattsfrádrátt) af aðföngum til starfsemi sinnar.

Tekið skal fram í þessu sambandi að dansleikjahald er skattskyld starfsemi; þannig bæri fyrirtækinu ef það væri sjálft samkomuhaldari að innheimta og skila virðisaukaskatti af aðgangseyri að dansleik og öðrum skattskyldum samkomum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.