Dagsetning                       Tilvísun
27. sep. 1990                             136/90

 

Virðisaukaskattur – efni sölureikninga.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. nóvember 1989, þar sem fram koma sjónarmið sambandsins um það ákvæði virðisaukaskattslaga sem bannar að færa á sama sölureikning skattskylda sölu og sölu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Er óskað undanþágu frá þessu ákvæði hvað varðar sölu hótela og gistiheimila á annars vegar gistingu og hins vegar morgunverði og öðrum veitingum.

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt er óheimilt að færa á sama sölureikning bæði skattskylda sölu og undanþegna. Ekki er lagaheimild til að veita undanþágur frá þessu ákvæði. Að áliti ríkisskattstjóra ber að túlka 9. gr. reglugerðar nr. 501/1989, sbr. 6. gr. reglug. nr. 156/1990, þannig að þar er ríkisskattstjóra heimilað að veita einstökum aðilum undanþágur frá þeim nánari fyrirmælum um tekjuskráningu sem felast í reglugerðinni umfram þær reglur sem fram koma í lögunum sjálfum.

Af ofangreindri ástæðu verður að synja erindi yðar. Tekið skal fram að heimilt er – m.a. til að koma í veg fyrir óhagræði sem hlýst af því að innheimta tvo reikninga hjá gesti – að nota reikning fyrir skattskyldri sölu sem undirgagn aðalsölureiknings, sem þá er jafnframt reikningsyfirlit.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.