Dagsetning                       Tilvísun
19. desember 1991                             374/91

 

Virðisaukaskattur – endurgreiðsla til sveitarfélags.

Með bréfi yðar, dags. 6. nóvember 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort sveitarfélag geti á grundvelli 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa sérfræðiþjónustu af V, nánar tiltekið vegna rannsókna á fiskiræktar- og fiskeldismöguleikum í sveitarfélaginu.

Ríkisskattstjóri tekur fram að opinberir aðilar, svo sem V, eru aðeins skyldir til að innheimta og skila virðisaukaskatti af þjónustusölu sem er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, þ.e. þegar um er að ræða þjónustu sem almennt er í boði hjá atvinnufyrirtækjum.

Sveitarfélög geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau greiða vegna kaupa á þjónustu sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu, sbr. 4. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Miðað við upplýsingar sem fram koma í erindinu virðist þetta ákvæði geta tekið til umræddrar þjónustu V, ef sú stofnun innheimtir virðisaukaskatt af þjónustusölu sinni.

Beiðni um endurgreiðslu skal senda viðkomandi skattstjóra og á hann úrskurðarvald um hana.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.