Dagsetning                       Tilvísun
2. mars 1992                            390/92

 

Virðisaukaskattur – endurgreiðsla vegna flutnings vöru úr landi.

Með bréfi, dags. 31. október 1991, óskið þér eftir því að ríkisskattstjóri kanni hvort unnt sé að koma við endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem sonur yðar greiddi við kaup á tölvu hér á landi. Fram kemur að sonur yðar, sem stundar nám í D, flutti tölvuna með sér úr landi og fékk stimpil tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli á sölureikning þar um. Þá segir í erindinu að þessi háttur hafi verið á hafður eftir að þér fenguð upplýsingar hjá seljanda, deildarstjóra í fjármálaráðuneytinu og tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli að nægjanlegt væri að stimpla sölureikning við brottför úr landi til að fá endurgreiðslu á virðisaukaskattinum.

Ríkisskattstjóri fær ekki séð að nein heimild sé til endurgreiðslu virðisaukaskatts af umræddum tölvukaupum. Fyrir liggur að tölvan var afhent kaupanda hér á landi og því getur salan ekki talist útflutningur skv. l. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Kaupandi nýtur ekki endurgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 500/1989, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna, en réttur til slíkra endurgreiðslna er bundinn við ferðamenn með erlent ríkisfang og erlenda heimilisfesti.

Þær upplýsingar sem þér segið fjármálaráðuneytið og tollgæsluna hafa gefið yður í þessu sambandi hljóta að hafa byggst á þeirri forsendu að varan væri flutt úr landi á vegum seljanda.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.