Dagsetning                       Tilvísun
6. júlí 1995                            691/95

 

Virðisaukaskattur – endurmenntunarnámskeið

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. júní 1995, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum.

Í bréfi yðar kemur fram að námskeiðið byggir að hluta á kennsluefni sem notað var við kennslu í stjórnun við T. Jafnframt segir að markmið námskeiðsins sé að sýna þátttakendum hver réttur þeirra er á atvinnumarkaðinum í Evrópu á grundvelli EES samningsins. Námskeiðið er fyrir atvinnulaust sérmenntað og háskólamenntað fólk.

Í 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarps til virðisaukaskattslaga segir að til reksturs skóla og menntastofnana teljist öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. Sérstaklega skal bent á að fagleg menntun og endurmenntun er undanþegin virðisaukaskatti ef kennslan miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu vegna atvinnu eða menntunar þátttakenda Einnig er tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að til undanþeginnar starfsemi auk hefðbundinnar skóla- og menntastarfsemi teljist t.d. starfsemi málaskóla, tónlistarkennsla og námskeið eða kennsla í skrifstofu- og stjórnunarfræðum.

Umrætt námskeið er að hluta til kennsla í stjórnun og að hluta til kynning á EES – samningnum hvað varðar atvinnuréttindi. Einnig er námskeiðið á lista atvinnuleysistryggingasjóðs yfir viðurkennd námskeið. Þar sem námskeiðið er haldið fyrir háskólamenntað eða annað sérmenntað fólk og er að hluta stjórnunarfræðsla verður ekki annað séð en að um sé að ræða endurmenntun vegna þátttöku á atvinnumarkaði. Samkvæmt framansögðu fellur umrætt námskeið undir 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum.

Að lokum skal þess getið að undanþágan tekur ekki til vöru sem afhent er gegn sérstakri greiðslu í tengslum við undanþegið námskeið, t.d. ef nemendum er selt námsefni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.