Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 328/91
Virðisaukaskattur – erlent útibú á Íslandi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort erlent útibú á Íslandi stundi virðisaukaskattsskylda starfsemi.
Starfseminni er lýst þannig að erlent hlutafélag starfrækir útibú hér á landi sem aðeins hefur með höndum kynningar- og upplýsingastarfsemi en ekki innflutning, enda annast íslenskt félag beint innflutning og sölu vörunnar hér á landi. Móðurfélagið endurgreiðir útibúinu þann kostnað sem til fellur á Íslandi.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að útibú, sem starfar hér á landi með þeim hætti sem lýst er í bréfi yðar, hafi með höndum viðskipti sem skattskyld séu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, en hvers konar auglýsinga- og kynningarþjónusta er virðisaukaskattsskyld. Útibúið er því að áliti ríkisskattstjóra skráningarskylt skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt.
Sala á auglýsingaþjónustu til erlends aðila er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. reglugerð nr. 194/1990, ef skilyrði þeirrar reglugerðar fyrir undanþágu eru að öllu leyti uppfyllt.
Við skráningu fær útibúið rétt til endurgeiðslu virðisaukaskatts af kostnaði við rekstur sinn að svo miklu leyti sem heimilt er að telja hann til innskatts, sbr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.