Dagsetning Tilvísun
5. júlí 1996 740/96
Virðisaukaskattur – farþegaþjónusta.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. maí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af svokallaðri farþegaþjónustu.
Í bréfi yðar er óskað álits á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á svokallaðri farþegaþjónustu. Samkvæmt bréfinu er farþegaþjónustan fólgin í því að farangur og farseðlar eru sóttir til flugfarþega kvöldið fyrir brottför og farið með þá til Keflavíkur til innritunar. Morguninn eftir er síðan viðkomandi flugfarþegi vakinn með símtali, hann sóttur og honum ekið til Keflavíkur.
Ljóst er að flutningur farangurs í þessu tilviki er nauðsynlegur þáttur í og í beinum tengslum við fólksflutninga. Það að farþegi og farangur eru ekki fluttir í sömu ferð breytir því ekki að verið er að selja fólksflutning enda er flutningur farþega í umræddu tilviki forsenda fyrir farangurs-flutningi og innritun. Að síðustu skal tekið fram að ákvæði reglugerðar nr. 224/1995, um leigubifreiðar standa því ekki í vegi að leigubifreiðar hagi fólksflutningum sínum með ofangreindum hætti.
Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að hér sé um að ræða fólksflutninga sem eru undanþegnir virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.