Dagsetning Tilvísun
31. des. 1992 441/92
Virðisaukaskattur – félagsgjöld – prentkostnaður.
Með bréfi yðar, dags. 17. september 1992, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort félagsgjald í tónlistarklúbbi sé undanþegið virðisaukaskatti og hvernig fara beri með innskatt vegna prentunar á fréttablaði tónlistarklúbbsins.
Í bréfi yðar er starfsemi tónlistarklúbbsins lýst á eftirfarandi hátt:
„Klúbbmeðlimir greiða fast árgjald til klúbbsins og fá í staðinn fréttablað, a.m.k. einu sinni í mánuði. Fréttablaðið verður tölusett og hið vandaðasta, með greinum og ýmsum fróðleik fyrir klúbbfélaga.
Klúbburinn mun auk þessa beita sér fyrir því að ná hagstæðum verðtilboðum fyrir félagsmenn og annast pantanir erlendis frá til þess að uppfylla óskir klúbbfélaga hverju sinni.“
Almenn félagsgjöld félagasamtaka, þ.e. þegar ekki er um að ræða endurgjald fyrir sérgreinda veitta þjónustu, eru ekki skattskyld skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með síðari breytingum. Af bréfi yðar verður hins vegar ráðið að með félagsgjaldi tónlistarklúbbsins sé um endurgjald (áskriftargjald) fyrir sérgreinda veitta þjónustu og að um sé að ræða starfsemi í atvinnuskyni og því er starfsemi þessi skráningarskyld. Skv. framansögðu ber því að innheimta virðisaukaskatt af félagsgjöldum tónlistarklúbbsins.
Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Fylgja þær hjálagðar.
Í kafla 2.3 í leiðbeiningunum er fjallað um skráningarskyldu vegna varanlegrar og reglulegrar útgáfustarfsemi félagasamtaka. Vísast til þess sem þar segir um úrlausn þess atriðis hvor félagið sé skráningarskylt vegna útgáfu fréttabréfs. Einnig er vísað til áðurnefndra leiðbeininga varðandi innskattsfrádrátt af útgáfustarfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Hjálagt: Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi.