Dagsetning                       Tilvísun
31.10.2005                             07/05

 

Virðisaukaskattur – fjarskiptaþjónusta – sala á alþjóðlegum símkortum
Ríkisskattstjóri móttók 17. nóvember 2004 bréf yðar sem dagsett er 15. nóvember 2004. Í bréfinu kemur fram að umbjóðandi yðar, sem er lögaðili með fjarskiptaleyfi, hafi í hyggju að selja þjónustu sem byggir á alþjóðlegri GSM reikiþjónustu. Jafnframt er tilgreint að þjónustan verði eingöngu til notkunar erlendis.

Í bréfi yðar kemur m.a. eftirfarandi fram um starfsemina: „Þjónustan yrði seld í formi alþjóðlegra símkorta, þannig að kaupandi greiðir fyrir notkun fyrirfram. Þetta yrði því sambærilegt við svokölluð frelsiskort hjá Símanum og Og Vodafone nema að því leyti að notkun yrði utan Íslands. Einnig er gert ráð fyrir því að handhafi kortsins geti keypt „áhleðslu“ sem væri því hægt að nota hvar og hvenær sem er. Þrátt fyrir framangreint er símanúmerið sem fylgir hverju korti íslenskt. Umrædd símkort verða eingöngu seld til aðila erlendis, bæði lögaðila sem endurselja þá kortin og einstaklinga til endanlegrar nýtingar erlendis.“ Ferli þjónustunnar er lýst í fimm liðum og jafnframt bætt við: „hér er því um að ræða sölu á fyrirframgreiddri þjónustu sem að mestu leyti er til endanlegra neytenda án þess að ljóst sé hver muni selja þjónustuna“.

Í bréfinu er óskað staðfestingar á því að umrædd sala á þjónustu falli undir ákvæði i- liðs 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og sé því undanþegin skattskyldri veltu þar sem þjónustan er nýtt að öllu leyti erlendis. Jafnframt eru lagðar fram eftirfarandi þrjár spurningar:

1. Ber ….. að innheimta virðisaukaskatt af seldri fjarskiptaþjónustu til erlendra aðila?
2. Skiptir máli í þessu sambandi ef umrædd fjarskiptaþjónusta væri aldrei nýtt hér á landi heldur einungis fyrir utan Ísland?
3. Skiptir máli hvar símkortin eru seld ef að einungis yrði mögulegt að nýta fjarskiptaþjónustu sem innifalin er í kortunum utan Íslands?

Ríkisskattstjóri óskaði nánari skýringa sem bárust í bréfi dagsettu 2. maí 2005 þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram: „Síma starfsemin, þ.e. GSM starfsemin á Íslandi lítur aðeins að því að stýra og hafa eftirlit með staðsetningum símanna sem eru í notkun á hverjum tíma og setja upp upplýsingaflæðið milli símanetsins erlendis sem síminn er staddur í og til þeirra tengivirkja (Switches) erlendis sem tengja símann við það símanúmer sem notandinn velur.“ Einnig kemur fram að umrædd símkort verði að mestu seld af erlendum dreifiaðilum sem selji þau beint til viðskiptavinarins. Kortin verði hugsanlega send héðan frá Íslandi en einnig er hugsanlegt að þau verði send frá dreifistöð utan Íslands. Rafræn dreifing til viðskiptavina erlendis muni fara fram gegnum vefsíður erlendis í gegnum fyrirtæki sem sérhæfa sig í „Fulfillment“.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Í 1. tölul. 1. mgr. 12. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga) segir að vinna og þjónusta sem veitt er erlendis teljist ekki til skattskyldrar veltu. Í 2. málsl. 1. tölul. 1. mgr. er sérstaklega tiltekið að fjarskiptaþjónusta teljist ekki veitt erlendis ef kaupandi þjónustunnar hefur annaðhvort búsetu eða starfsstöð hérlendis. Í því felst að þjónustan telst í þeim tilvikum vera veitt hérlendis og telst því ekki til undanþeginnar veltu á grundvelli ákvæðisins.

Í ákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um sölu á sérstaklega tilgreindri þjónustu til erlendra aðila, þ.e.a.s. til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi. Þar kemur fram að þjónustan er undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum. Til að halda þjónustusölu utan skattskyldrar veltu skv. ákvæðinu verður þjónustan í fyrsta lagi að vera að öllu leyti nýtt erlendis, sbr. 1. málsl. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr., eða, ef svo er ekki, að kaupandinn gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts skv. 15. og 16. gr. laganna, sbr. 3. málsl. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. Í öðru lagi verður viðkomandi þjónusta að vera talin upp í ákvæðinu. Fjarskiptaþjónusta er meðal þess sem talið er upp í ákvæðinu, sbr. i-lið ákvæðisins.

Fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending geti hafist í einu landi og lokið í öðru. Þess vegna hefur í skattframkvæmd verið talið rétt að líta til þess hvar starfsstöð seljanda er við ákvörðun afhendingarstaðar. Þjónustan telst því a.m.k. að nokkru leyti vera nýtt á þeim stað sem hún er veitt, þ.e. á starfsstöð seljanda þjónustunnar.

Fjarskiptaþjónusta fyrirspyrjanda, sem er íslenskt fyrirtæki með fjarskiptaleyfi, telst veitt hérlendis og þar með nýtt, a.m.k. að nokkru leyti, hér, sbr. það sem segir um afhendingarstað hér að framan. Hún getur því ekki talist nýtt að öllu leyti erlendis og fellur þar með ekki undir 1. málsl. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. vsk-laga. Fjarskiptaþjónustan er því aðeins undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu íslenska fyrirtækisins ef kaupandinn gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna þjónustukaupanna til innskatts skv. íslenskum reglum, sbr. 3. máls. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. vsk-laga. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvar salan á símkortunum fer fram, enda þykir verða að líta á afhendingu þeirra sem lið í að veita fjarskiptaþjónustu fremur en sjálfstæða vörusölu.

Beðist er velvirðingar á þeim óhóflega drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Ríkisskattstjóri