Dagsetning Tilvísun
19. feb. 1990 25/90
Virðisaukaskattur – flugkennsla og leiguflug.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. október 1989, þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort innheimta beri virðisaukaskatt af flugkennslu og leiguflugi.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
1. Flugkennsla er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
2. Flutningur farþega með loftfari gegn gjaldi (leiguflug) er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 (fólksflutningar). Sjúkraflug er einnig undanþegið virðisaukaskatti.
3. Greiða ber virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir annað leigu- eða þjónustuflug en með farþega, t.d. vegna mælinga eða vöruflutninga, er skattskylt til virðisaukaskatts. Endurgjald fyrir vöruflutninga milli landa telst þó ekki til skattskyldrar veltu.
4. Undanþágur samkvæmt 1. og 2. tölul. hér að framan ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts ( innskatts ) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.
Í þessu sambandi skal tekið fram að sala og útleiga loftfara telst ekki til skattskyldrar veltu hjá seljanda eða leigusala, þ.e. ber ekki virðisaukaskatt (útskatt). Sama gildir um viðgerðar- og viðhaldsvinnu við loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Þessar undanþágur ná ekki til einkaloftfara, heldur aðeins þeirra loftfara sem skráð eru sem atvinnuloftför í loftfaraskrá flugmálastjórnar, enda sé flugrekandi handhafi tilskilinna leyfa til atvinnuflugs (flugrekstrarleyfi, sbr. reglugerð nr. 381/1989).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.