Dagsetning Tilvísun
2. ágúst 1990 123/90
Virðisaukaskattur – form sölureikninga.
Í 4. gr. reglug. nr. 501/1989, eins og henni hefur verið breytt með reglug. nr. 156/1990, er ákvæði um form reikningseyðublaða. Segir þar að reikningseyðublöð skuli vera fyrirfram tölusett (áprentuð númer) í samfelldri töluröð og með áprentuðu nafni, kennitölu og skráningarnúmeri seljanda.
Til nánari skýringar á þessari reglu skal eftirfarandi tekið fram:
- Atriði sem fram skulu koma.
Reglan nær bæði til útgefinna sölureikninga og birgða aðila af ónotuðum reikningseyðublöðum. Því skal allt upplag og öll eintök reikningseyðublaða í eigu og umsjón rekstraraðila á hverjum tíma:
(a) Vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð.
(b) Bera nafn útgefanda, kennitölu hans og skráningarnúmer (vsk-númer).
- Ápentun reikingseyðublaða.
Upplýsingar skv. a- og b-liðum l. tölul. skulu vera áprentaðar. Engar skorður settar við því hvaða tækni er notuð við sjálfa prentunina, svo fremi sem skilyrði 1. tölul. eru uppfyllt. Rekstraraðili getur hvort heldur sem er:
(a) Látið prenta þessar upplýsingar á allt upplagið í einu lagi í prentsmiðju.
(b) Prentað upplýsingarnar á allt upplagið í einu lagi í eigin tölvuprentara.
Til dæmis getur aðili uppfyllt framangreindar kröfur með því að kaupa fyrirfram tölusett upplag eyðublaða af verslun eða prentsmiðju og látið annan aðila prenta – eða prentað sjálfur í tölvuprentara – upplýsingar um nafn, kennitölu og skráningarnúmer á allt upplagið. Þess er ekki krafist að keyptur sé lágmarksfjöldi áprentaðra reikninga, en gæta skal þess að hefja ekki aftur sömu númeraröð á sama reikningsári.
- Frávik fyrir smærri aðila.
Þrátt fyrir reglu 2. tölul. um áprentun eyðublaða fellst ríkisskattstjóri á að smærri rekstraraðilar sem nota óverulegt magn reikningseyðublaða á hverju ári stimpli nafn, kennitölu og skráningarnúmer á allt upplag og öll eintök reikningseyðublaða sinna, enda sé allt upplagið tölusett fyrirfram í samfelldri röð, annaðhvort af prentsmiðju eða í tölvuprentara. Aðili telst aftur á móti ekki hafa uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar með því að handskrifa eða vélrita nafn o.s.frv. á reikningseyðublöðin.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.